146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Staðreyndin er sú að þau drög að eigandastefnu sem hafa verið lögð fram á heimasíðu fjármálaráðuneytis eru auðvitað mikil vonbrigði. Þau fela ekki í sér neina skýra framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið heldur annars vegar almennt orðalag um einhvers konar gildi í starfsemi fjármálafyrirtækja og hins vegar þau markmið að selja allt bankakerfið fyrir utan 30–40% hlut í Landsbankanum. Það er ekki gefið til kynna að ljúka eigi þeirri vinnu sem hæstv. ráðherra nefndi þó í ræðu sinni áðan, að skoða út í hörgul hvaða kosti aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi gæti haft í för með sér. Þó að verulega miklar breytingar hafi verið gerðar á regluverki fjármálafyrirtækja innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur verið bent á að það regluverk þjóni ekki endilega þeim tilgangi sem við viljum sjá, það sé ógagnsætt, þungt í vöfum og hafi ekki þau grundvallaráhrif á menningu og starfshætti fjármálakerfisins sem við viljum. Á þetta hefur t.d. verið bent af John Kay, breska hagfræðingnum sem hefur talað mjög fyrir aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi sem var samkvæmt tölum frá árslokum 2013 á bilinu 14–25% af íslenska fjármálakerfinu. Og hefur aukist síðan.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að ríkið gefi út stefnu þar sem fyrir liggur að ríkið ætli að eiga a.m.k. einn banka eða viðskiptabankastarfsemi, en á ríkið að hafa með höndum fjárfestingarbankastarfsemi? Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra að ríkið bæri ekki ábyrgð á innlánum í bönkunum í framsöguræðu sinni. En hvernig eigum við samt að túlka þau sögulegu fordæmi sem við höfum frá árinu 2008? Hvað myndi ríkið gera ef annað slíkt áfall riði yfir? Hversu vel væri þá ríkið sett ef búið væri að rökræða a.m.k. til þrautar aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi og raunverulega (Forseti hringir.) áhættu þess að fjárfestingarbankastarfsemi geti fallið á almenning með þeim hætti sem við höfum séð annars staðar?

Ég tel þessa eigandastefnu setta fram án þess að nauðsynleg umræða hafi farið fram á Alþingi og hjá stjórnvöldum um hvert við viljum í raun stefna með íslenska fjármálakerfið. (Forseti hringir.) Sú umræða hefur ekki farið fram í gegnum innleiðingu á regluverki EES, því miður. Sú innleiðing hefur kannski verið of ógagnsæ. (Forseti hringir.) Afsakið, frú forseti.