146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[16:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, í sérstakri umræðu um eigandastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Við ræðum nefnilega eitt mikilvægasta skrefið í endurreisninni frá efnahagshruninu. Við ræðum hér gríðarlega mikilvægt mál fyrir ríkissjóð Íslands, þjóðarbúið, íslenskt efnahagslíf og samfélagið í heild sinni. Við ræðum í stuttri umræðu undir dagskrárlið sem nefnist sérstök umræða um mestu einkavæðingu Íslandssögunnar frá því Búnaðarbankinn var afhentur góðvinum þáverandi ráðamönnum í pólitík. Til að halda áfram samanburðinum við einkavæðingu á Búnaðarbankanum árið 2003 og Landsbankanum árið 2003 líka, er allt í lagi að rifja það upp nú þegar fréttir berast af því að vogunarsjóðir ásælast fjórðungshlut í Arion banka og gríðarlegur þrýstingur er frá Kaupþingi, sem á 87% í bankanum, að ýta á eftir sölunni á hlut ríkisins í Arion banka.

Frú forseti. Sporin hræða þegar kemur að einkavæðingu bankakerfisins á Íslandi enda eignuðust dæmdir fjárglæframenn, sem sannarlega lögðu lóð sín á vogarskálar hrunsins, stóra hluti í íslenska bankakerfinu. Því þarf að skýra það hverjir það eru sem ásælast hlutinn í Arion banka og svo seinna meir hluti í hinum bönkunum sem hæstv. fjármálaráðherra ætlar sér að selja.

Því vil ég spyrja, og vonandi kemur svar fram í lokaræðu hæstv. fjármálaráðherra: Veit fjármálaráðherra hverjir standa að baki vogunarsjóðunum sem ásælast mjög Arion banka? Er það rétt sem komið hefur fram í fjölmiðlum að helstu eigendur Kaupþings og starfsmenn séu að reyna að þvinga söluna á Arion banka í gegn í þágu eiginhagsmuna? Hvaða skoðun hefur hæstv. fjármálaráðherra á þessu?

Nú þegar drögin að eigandastefnunni liggja fyrir, sem gagnrýnisvert er að ekki hafi verið kynnt og rætt fyrir Alþingi áður en þau voru kynnt á heimasíðu fjármálaráðuneytisins, er rétt að spyrja: Hvaða tryggingu býr íslenskur almenningur við að fagmannlega sé staðið að næstu einkavæðingu í íslensku bankakerfi af hálfu ríkisstjórnar sem lafir á eins manns meiri hluta? Síðast en ekki síst: Hver eru markmið og sýn hæstv. fjármálaráðherra á skipulag bankakerfisins önnur en niðurgreiðsla skulda með sölu á öllum hlutum ríkisins nema 30–40% hlut (Forseti hringir.) í Landsbankanum?

Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra að ekki á að keyra þessi mál áfram. En vöndum (Forseti hringir.) til verka. Tryggjum hagsmuni íslensks almennings en ekki eingöngu ríkisábyrgðina (Forseti hringir.) sem fellur á almenning ef illa fer óháð eignarhaldi bankanna.