146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[16:08]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þær umræður sem hér fara fram um framtíðarskipan bankakerfis á Íslandi, kosti þess að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi og umræður um greiðslukerfi bankanna eru nú kannski ekki mikið viðloðandi eigandastefnu ríkisins, en framtíðarskipan bankakerfisins hefur verið í stöðugri endurskoðun allar götur frá 2009. Ég hef núna á síðustu mínútum talið saman 32 breytingar sem hafa átt sér stað á löggjöf um fjármálafyrirtæki og síðan eru ýmsar breytingar á löggjöf um opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum þannig að hér hefur ýmislegt verið gert.

En meginútgangspunkturinn hér er sá og á að lækna allt að viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi verði aðskilin. Nú er það alls ekki ljóst hvað felst í fjárfestingarbankastarfsemi eftir þessum umræðum hérna. Það sem gerðist hér á árunum 2003–2008 er að bankarnir urðu risastórir fjárfestingarsjóðir. Þeir voru ekki fjárfestingarbankar. Þeir fóru að fjárfesta í ýmsum fyrirtækjum samhliða sínum eðlilega bankarekstri og þar fór ýmislegt úr böndum. Sú löggjöf sem þá var við lýði hefði í raun átt að koma í veg fyrir það en gerði það því miður ekki, vegna einhvers misskilnings. En það sem skiptir meginmáli er að fjármálafyrirtækjum er stýrt, þetta er ein risastór áhættustýring. Þannig kemur orðið áhætta samtals fyrir 339 sinnum í þessari löggjöf um fjármálafyrirtæki frá 2002 í einhverju sambandi.

Það sem skiptir máli hér er að fjármálafyrirtæki séu rekin á faglegum grunni, að einstaklingar geti notið þjónustu á viðráðanlegum kjörum. Ég hef verið að bera saman lánskjör Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur annars vegar og vaxtamun í íslenskum bönkum og mér blöskrar. Það sem kallað er hér Borgunarhneykslið, Borgunarmál, er ósköp einfaldlega spurning um gjaldtöku í einfaldri greiðslumiðlun. Hún er ekki eðlileg hérna og á því ber að vinna. Það er stóra málið.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu og biðst afsökunar á að hafa farið fram yfir.