146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[16:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Hæstv. ráðherra benti á að ríkið þyrfti ekki að eiga banka til þess að breyta skipulagi þeirra. Það er rétt. En er ekki heiðarlegra og betra að hugsanlegir kaupendur viti hvernig stjórnvöld vilja láta kerfið þróast? Þess vegna er mikilvægt að stefnan sé tekin áður en hlutirnir eru seldir.

Þar sem aðskilnaðar viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi hefur ekki verið krafist er Seðlabankinn lánveitandi til þrautavara, ekki aðeins vegna starfsemi innlánsstofnana heldur líka vegna starfsemi fjárfestingarbanka. Sú tegund bankastarfsemi er allt annars eðlis og miklu áhættusæknari. Hún felur í sér að fjárfestingarbankinn kaupir áhættusamar eignir, ábyrgist öflun áhættufjár, stundar flókin afleiðuviðskipti og á í viðskiptum við aðila sem stunda spákaupmennsku. Fjárfestingarbankar sjá sér hag í að hvetja starfsmenn sína til áhættutöku bankans í hagnaðarskyni og bónusar og kaupréttarsamningar notaðir í því skyni. Að blanda slíku saman við starfsemi innlánsstofnana er hættulegt eins og íslensk dæmi sanna.

Framtíðarsýn hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra virðist vera að almenningur beri áfram ábyrgð á áhættusækinni fjárfestingarbankastarfsemi.

Innstæður eru uppistaðan í greiðslumiðlun landsins. Nútímasamfélög reiða sig á að viðskiptabankar séu ávallt greiðslufærir og truflanir á greiðslumiðlun þyrftu ekki að standa lengi til að verulegt tjón hlytist af.

Frú forseti. Ég vil að lokum ítreka hvatningu mína til hæstv. ráðherra að hafa frumkvæði að samráði stjórnar, stjórnarandstöðu og fleiri um hvernig best væri að byggja upp bankakerfi hér á landi sem þjónar á ódýran hátt almenningi og venjulegum fyrirtækjum í landinu og ver almenning fyrir mikilli áhættu.