146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

lækkun virðisaukaskatts á gleraugum og linsum.

105. mál
[16:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Gleraugu og linsur með styrk falla í almennt þrep virðisaukaskatts og bera 24% skatt. Við mat á því hvort rétt sé að lækka virðisaukaskatt á gleraugum og linsum og skattleggja slíkar vörur í neðra þrepi skattsins vegast á hugmyndir annars vegar um sértækar ívilnanir og hins vegar það sjónarmið að fækka eigi undanþágum í virðisaukaskattskerfinu og einfalda frekar kerfið með aukna skilvirkni að leiðarljósi.

Á starfstíma síðustu ríkisstjórnar var almennt þrep virðisaukaskatts lækkað úr 25,5% í 24% og lægra þrepið hækkaði úr 7% í 11%. Þannig var bilið milli almenna og lægra þrepsins minnkað. Jafnframt var skattstofninn breikkaður. Jafnræði milli skyldra atvinnugreina jókst og dregið var úr hvata til undanskota. Í skýrslu frá sérfræðingateymi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá maí 2014 og nýlegum úttektum innlendra sérfræðinga á skattkerfinu hefur verið bent á nauðsyn þess að einfalda virðisaukaskattskerfið. Einn þáttur þess er að fækka undanþágum í kerfinu og hvers konar frávikum frá breiðum stofni og almennu þrepi.

Virðisaukaskattskerfið er stærsti einstaki skattstofninn fyrir ríkissjóð. Samkvæmt mælingum OECD er töluvert svigrúm til staðar til að bæta tekjuskilvirkni virðisaukaskatts á Íslandi. Aukin tekjuskilvirkni kerfisins næst meðal annars fram ef sem fæstar undanþágur og ívilnanir eru til staðar í löggjöfinni. Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að ná fram meiri árangri í tekjujöfnun með því að einfalda virðisaukaskattskerfið ásamt því að beita markvissum aðgerðum á öðrum sviðum en að beita virðisaukaskatti í slíku skyni. Þetta er til dæmis tekið fram í áðurnefndri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í maí 2014.

Aðildarríki OECD hafa almennt ekki undanþegið gleraugu og linsur frá virðisaukaskatti eða þá haft slíkar vörur í lægra þrepi virðisaukaskatts. Skoðun ráðuneytisins á lægra þrepi skattsins í aðildarríkjum sambandsins leiddi í ljós að aðeins eitt aðildarríki skattlagði gleraugnalinsur í lægra þrepi virðisaukaskatts.

Á þessu má sjá að nánast öll aðildarríki OECD hafa ákveðið að skattleggja slíkar vörur í almennu þrepi virðisaukaskatts en einstök ríki kunna eftir atvikum að koma með öðrum hætti til móts við þá sem þurfa á gleraugum og linsum með styrk að halda. Ríkið kemur til móts við einstaklinga vegna kostnaðar við gleraugnakaup að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, samanber lög nr. 160/2008, um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og reglugerð nr. 1155/2005 um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugnakaup. Einnig má nefna að þeir sem eru skráðir í stéttarfélög geta fengið margvíslega styrki vegna gleraugnakaupa og linsukaupa. Þá geta þeir einstaklingar sem fá greiddar atvinnuleysisbætur óskað eftir því við sitt stéttarfélag að halda áfram greiðslu til félagsins og njóta þannig þeirra styrkja og annarra hlunninda sem stéttarfélögin bjóða félagsmönnum sínum upp á. Þá geta foreldrar sem sækja um fæðingarorlof óskað eftir því að greiða í stéttarfélög meðan á fæðingarorlofi stendur.

Virðulegi forseti. Á þessu má sjá að einstaklingar, jafnt þeir sem eru á vinnumarkaði sem og þeir sem fá greiddar atvinnuleysisbætur og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, geta almennt séð fengið styrki úr sínum stéttarfélögum vegna kaupa á gleraugum og linsum með styrk. Með vísan til þessa tel ég það ómarkvisst að virðisaukaskattur vegna kaupa á gleraugum og linsum verði færður úr almennu þrepi í lægra þrep virðisaukaskatts.