146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

lækkun virðisaukaskatts á gleraugum og linsum.

105. mál
[16:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum sem tóku þátt. Fyrst vil ég segja að ég tel eðlilegt að hið opinbera styrki þá sem þurfa að nýta gleraugu. Hvort virðisaukaskattskerfið er besta leiðin til þess, ég er ekkert að leggja mat á það í þessari fyrirspurn. Það kann að vera að það sé einfaldast, eins og hér hefur verið rætt úti í sal, að þetta verði hluti af almennu greiðsluþátttökukerfi. En það er alveg á hreinu að hið opinbera á að styrkja og styðja betur við þá sem þurfa að nota gleraugu því að það er ekki val neins. Ég tek það fram að ég hef sjálf aldrei þurft að nýta slík hjálpartæki. (Gripið fram í: Bíddu bara.) Þetta er hins vegar nokkuð sem við heyrum mikið af, við þingmenn.

Ég vil hins vegar segja það út af svörum hæstv. ráðherra, hann segir hér skýrt að hann vilji ekki lækka virðisaukaskatt á gleraugum og linsum, væntanlega þá ekki á lyfjum heldur. En mig langar þá að inna hæstv. ráðherra, því að hann talar um að hann vilji fækka undanþágum í virðisaukaskattskerfinu: Lítur hæstv. ráðherra á lægra þrep virðisaukaskattskerfisins sem undanþágu? Vill hæstv. ráðherra að virðisaukaskattskerfið verði eitt þrep? Vill hæstv. ráðherra hækka matarskatt? Vill hæstv. ráðherra hækka skatta á bækur? Eða taubleiurnar og smokkana sem ég nefndi hér, sem Alþingi ákvað að færa í lægra þrep virðisaukaskatts eftir talsverða umræðu hér á þingi. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt atriði sem þarf að ræða hér á Alþingi.

Við vitum og þekkjum alveg ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er að það eigi bara að vera eitt virðisaukaskattsþrep, tiltölulega hátt. Og svo er sagt: Ja, það er hægt að beita tekjujöfnun á móti. En hvað á þá að gera, hæstv. ráðherra? Ætlar hæstv. ráðherra þá að beita sér fyrir aukinni þrepaskiptingu í kerfinu? Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir hækkun persónuafsláttar ef það á að taka upp eitt þrep í virðisaukaskatti? Því eins og ég sagði hér áðan: Það að hækka matarskatt til að mynda á sínum tíma bitnaði mest á lágtekjufólki. (Forseti hringir.) Og víða um heim er virðisaukaskattskerfið nýtt til þess að koma til móts við lágtekjufólk í ýmsum málum.