146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég sé að fyrirspyrjandi er að spyrja annan ráðherra um sama mál. Það er bara gott (Gripið fram í.) að hún nær okkur báðum hérna. Það er mjög hentugt, mjög gott, því að þetta mál sem hún ræðir á auðvitað heima innan margra ráðuneyta.

Svo ég svari fyrstu spurningu hennar: Já, ég hef verið að skoða þetta mál og skoða vinnu starfshóps, sem er ekki alveg búin, sem fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra setti af stað og var væntanlega gert í samvinnu við hv. þingmann þegar hún gegndi ráðherrastöðu í félagsmálaráðuneytinu.

Sá starfshópur skilaði tillögu til þáverandi ráðherra í desember 2015. Þar voru tillögur um lagabreytingar sem gætu haft í för með sér lækkun á byggingarkostnaði sem lutu m.a. að einföldun stjórnsýslu við útgáfu byggingarleyfis og að gagnaskilum, að aukinni áherslu á innra eftirlit í stað ytra eftirlits á framkvæmdatíma, auknum sveigjanleika varðandi kröfur um byggingarstjóra og frekari samræmingu skipulagslaga við lög um umhverfismat áætlana.

Í framhaldi af vinnu starfshópsins voru svo gerðar breytingar á byggingarreglugerð, eins og þingmaðurinn væntanlega þekkir. Þær tóku gildi 29. apríl 2016. Þær breytingar lutu einkum og helst að aðkomu, umferðarlögum og innri rýmum mannvirkja sem og stjórn mannvirkjamála hvað varðar minni háttar framkvæmdir sem undanþegnar voru byggingarleyfi.

Þá hefur þessi starfshópur á undanförnum mánuðum unnið að tillögum, því að næsta spurning laut að því hvort þær tillögur færu að skila sér í lagabreytingum. Svarið við því er því já, ég vænti þess að skipulagslög, nr. 123/2010, taki mið af tillögum umrædds starfshóps. Við miðum við að frumvarp til breytinga á lögum um mannvirki og skipulagslög verði lagt fram á haustþingi 2017.

Þessu til viðbótar þá hefur, eins og hv. þingmaður las upp eða greindi frá, hv. félags- og jafnréttismálaráðherra haft frumkvæði að því að koma á fót þverfaglegu teymi, ef maður getur sagt það, eða samráðsvettvangi ráðherra sem hefur með þau mál að gera þar sem við ræðum hvort við getum hagað málum betur. Mér hefur heyrst að hann vilji ekkert endilega vera að gera fleiri skýrslur um sama mál, því að þessu hefur verið unnið talsvert, heldur að við förum að taka það saman sem þegar hefur verið gert og koma því í framkvæmd, þannig að það er fullur hugur á því, það er í vinnslu.