146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er áhugavert efni, ekki síst í ljósi þess að mannvirkjageirinn stendur fyrir 30% af allri kolefnislosun í heiminum. Það verður samt að passa sig á því, þegar menn ætla að fara að slaka á í byggingarreglugerðum, að ekki sé alltaf verið að slaka á í kröfum gagnvart þeim hópum sem minnst mega sín og minnka alltaf kröfurnar um aðbúnað og rými. Það er miklu frekar að fá okkur sem höfum efni á að búa stærra og kaupa stærra til að búa minna. Í dag býr hver Íslendingur í 65 m² en Finninn í 34. Það erum við sem meira höfum sem þurfum aðeins að slaka á.

Síðan þarf að passa sig á að gefa engan afslátt af gæðum bygginganna. Umræðan um íslenska vegginn, mygluna sem hugsanlega hefur stafað af honum og því álagi sem hefur skapast með nútímalifnaðarháttum — það þarf að gæta að þessu.