146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þeim skallabletti í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem húsnæðismálin eru. Ég held ekki endilega að breyting á lögum sé stóra lausnin í húsnæðismálum en mig langar að nýta tækifærið til að lýsa mig í hópi vina byggingarreglugerðarinnar, eins og mér heyrðist hv. þm. Logi Einarsson gera.

Byggingarreglugerð þykir mér hafa tvennan tilgang sem of mikið hefur verið sneitt að á undanförnum árum. Annars vegar er það neytendavernd og gæði; að tiltaka hvernig á að byggja mannvirki þannig að við stöndum ekki frammi fyrir því eftir nokkur ár að þurfa að verja milljörðum á ári í mygluskemmdir.

Hins vegar er það spurningin um það hvernig samfélag við viljum byggja. Algild hönnun kveður á um að við gerum samfélagið aðgengilegt fyrir alla þannig að við séum ekki að dæma fatlað fólk (Forseti hringir.) til vistar í sérhönnuðu húsnæði heldur sé hvert einasta mannvirki sem er reist aðgengilegt fyrir fólk þannig að hver sem er geti búið hvar sem er, að það þurfi bara (Forseti hringir.) aðeins að breyta tækjum innan stokks; að rýmið bjóði upp á að við veljum okkur öll búsetu þar sem við viljum.