146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:43]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá umræðu sem verið hefur hér, það er mjög mikilvægt að ráðast í átak og að samstarf sé milli ríkis og sveitarfélaga varðandi úthlutun lóða, skipulag og fleiri þætti til þess að auðvelda fólki að fara af stað og byggja litlar og meðalstórar íbúðir. Mjög hátt og sífellt hækkandi fasteignaverð er meðal annars vegna þess að mikill skortur er á litlum og meðalstórum íbúðum í okkar annars ágæta samfélagi.

Einnig vil ég leggja áherslu á að við aukum sveigjanleika í byggingarreglugerð. Það tel ég að sé mjög vel hægt án þess að það komi niður á aðgengismálum eða algildri hönnun. Við þurfum að leyfa fólki að hafa meira um það að segja sjálft hvernig það skipuleggur húsnæði sitt í samvinnu við þá (Forseti hringir.) sem það hyggst leita til án þess að kostnaður sé of íþyngjandi og það komi niður á ýmsum aðgengismálum.