146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Forseti. Ég ætla líka að þakka fyrir þessa umræðu, ég held að hún sé mikilvæg. Það er ánægjulegt að sjá þessa frétt um samræmdar aðgerðir og samstarfshóp ráðherranna, ég held að það sé mikilvægt.

En mig langaði aðeins að koma inn á hagtölur um íbúðamarkaðinn. Mér líður stundum eins og bankar og aðrir séu að keppast við að koma með sem mest spennandi tölur um hver raunveruleg þörf sé inn á íbúðamarkaðinn. Þá langar mig að heyra það frá ráðherra hvar þessar hagtölur liggja núna. Ég veit að það var hluti af landsskipulaginu að safna þeim saman. Það er eiginlega hálffurðulegt, miðað við allar þær upplýsingar sem við höfum hjá hinu opinbera, hjá byggingarfulltrúaembættunum, að við höfum ekki betri upplýsingar um hvað sé á leiðinni inn á markað. Við erum alltaf svolítið að elta skottið á sjálfum okkur. Hér erum við að tala um að minni íbúðir skorti en þær eru kannski allar handan við hornið.

Ég ætla líka að taka undir þessa umræðu um gæði og mikilvægi fjölbreytni (Forseti hringir.) í íbúðabyggð. Við verðum að huga að samfélagslegum auði þegar þar að kemur. Það er ekki gott þegar heilu hverfin eru tekin undir einsleita byggð. Það er mjög mikilvægt að blanda þessu.