146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:51]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna og öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni; hún hefur verið mjög gagnleg fyrir mig. Eins og hv. þm. Logi Einarsson kom inn á þá er kolefnisspor — ég hef verið á kafi í loftslagsmálum eftir að ég tók við embætti — byggingariðnaðarins gríðarlega hátt. Þess vegna skiptir miklu máli að gera vel í byggingarreglugerð, svo að við séum ekki að byggja húsnæði sem er svo kannski ekki nægilega gott eða ekki eftir nægilega ígrunduðu skipulagi eða hentar ekki; húsnæði sem þarf þá að rífa niður og byggja annað. Það gengur ekki svona.

Ég vil hafa það á hreinu að í allri umræðu sem á sér stað, alla vega í mínu ráðuneyti, er ekki verið að ræða um að slaka á byggingarreglugerð, alls ekki, heldur að lagfæra ferla og bæta skilvirkni stofnana og eftirlitsaðila til að hlutirnir geti gengið betur fyrir sig. Aðgengi, neytendavernd og gæði skipta auðvitað höfuðmáli. Við megum ekki breyta byggingarreglugerð til þess að fórna þessu. Það held ég að sé ekki hugmynd eins né neins.

Varðandi það sem kom hér fram frá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og hv. málshefjanda, um það hvað sé á leiðinni inn á markaðinn, er það alveg rétt að svo virðist vera að ekki séu til samræmdar hagtölur um þau mál. Það skiptir líka öllu máli fyrir ríkissjóð og alla (Forseti hringir.) fjármálaframsetningu að við vitum hvað er að fara koma, vitum um þá þenslu sem kannski er væntanleg svo að við getum hagað öðrum fjárfestingarverkefnum til samræmis. Þetta er til vinnslu hjá Skipulagsstofnun. Ég vonast til að við getum fært eitthvað fram sem fyrst.