146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[16:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur sérstaklega fyrir þessa ágætu fyrirspurn um kvíða hjá börnum og ungmennum. Það er mikilvægt málefni. Við sem starfað höfum að skólamálum þekkjum vel þetta vandamál sem hefur verið að, eigum við að segja, mælast sífellt betur. Þegar kemur að kvíða er það sérstakt áhyggjuefni að hann virðist mælast ekki síður og meira hjá stúlkum en drengjum, en síðustu áratugina höfum við höfum einblínt á annan vanda barna, ADHD-vanda og annars konar vanda sem virðist frekar herja á drengi en stúlkur. Kvíðinn hefur verið eins konar feluvandi, má segja. Það er mikilvægt að við tökum þessar niðurstöður alvarlega.

Ég vil byrja á að nefna, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru áhersluatriði í geðheilbrigðismálum skýr og í takt við þá stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var á Alþingi þann 29. apríl 2016. Lögð verður áhersla á leiðir til að auka aðgengi að áhrifaríkri þjónustu og grípa inn í geðheilbrigðisvanda fyrr en ella. Þá vil ég minna á verkefnin um heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla sem verið hafa í gangi um nokkurt skeið. Þau eru á vegum embættis landlæknis í samstarfi við sveitarfélögin, leik- og grunnskóla og framhaldsskóla. Þar er áhersla lögð á forvarnir og heildræna nálgun til að styrkja börn og ungmenni, þar með talið á sviði geðræktar. Það er mikilvægt að efla enn frekar þá vinnu með það að markmiði að sem flestir skólar í landinu verði heilsueflandi, sem er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu.

Síðan vil ég nefna að í september síðastliðnum samþykkti ráðherranefnd um samræmingu mála lýðheilsustefnu og aðgerðir sem stuðla að heilsueflandi samfélagi með sérstakri áherslu á börn og ungmenni að átján ára aldri. Þær aðgerðir sem lagðar eru til í þessari stefnu eru mislangt á veg komnar, þær eru ýmist í vinnslu eða lengra komnar.

Ég vil nefna sérstaklega að nú er unnið að því að auka aðgengi að þjónustu heilsugæslustöðva sem gegna lykilhlutverki sem fyrsti viðkomustaður heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst fyrir börn og ungmenni. Þá eru áform um að styrkja enn frekar þverfaglega nálgun í þjónustu heilsugæslu og þar með talið sálræna þjónustu sem ætti að koma betur til móts við þarfir barna og unglinga. Þá má nefna að nú er verið að vinna áætlun um aukið vægi fjarheilbrigðisþjónustu. Þar eru margs konar möguleikar fyrir fjargeðheilbrigðisþjónustu sem vísbendingar eru um að henti ekki hvað síst ungmennum.

Nefnt hefur verið og rætt og komin er ágætisþingmannatillaga fram hér á þinginu um að tryggja sálfræðiþjónustu við ungmenni í framhaldsskólum. Það er verkefni sem við munum styðja í samvinnu við menningar- og menntamálaráðuneytið.

Ég vænti þess að þau úrræði sem ég hef nefnt hérna og þau verkefni sem eru ýmist í framkvæmd eða á undirbúningsstigi muni með beinum eða óbeinum hætti gagnast börnum og unglingum, ekki síst stúlkum með kvíðaraskanir, og mögulega koma í veg fyrir kvíðaraskanir hjá börnum og unglingum.

Síðan vil ég minna á að í ljós kom í mælingum, sem við eigum góðar, á árunum fyrir og eftir hrun hvaða áhrif efnahagsástand og þjóðfélagsástand virtist hafa á stöðu ungmenna. Sú óvænta niðurstaða varð eftir hrunið að samkvæmt mælingum fækkaði þeim börnum sem upplifðu litla tengingu við fjölskyldulíf, mælanlegur kvíði var minni og minni áhyggjur mældust hjá ungmennum fyrst eftir hrunið. Virðist það hafa haft einhver áhrif að fjölskyldur og landsmenn þjöppuðu sér saman. Það er sérstakt áhyggjuefni að þessar mælingar skuli nú hækka því að þetta voru merki um mælingar þar sem Íslendingar og íslensk ungmenni sköruðu fram úr í jákvæðum mælingum.

Ég hlakka til umræðunnar sem hér fer í hönd.