146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:08]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég kem hér upp eins og oft áður til þess að varpa ljósi á mikilvægi þess að skoða heildarmyndina. Við þurfum að skoða hvatana í kerfunum og hvernig við hlúum að fjölskyldum og bara öllum samborgurum okkar, sérstaklega hvað varðar félagsleg og efnahagsleg réttindi, og fara að skoða hversu mikil áhrif þessir hvatar í kerfunum hafa á kvíða barnanna okkar þegar kemur t.d. að samkeppni í menntakerfinu eða bara samkeppni í samfélaginu öllu. Forgangsröðunin, þar sem við missum oft sjónar á raunverulegum verðmætum, það er gríðarlega mikilvægt að við týnum okkur ekki í því að meðhöndla bara einkennin. Þótt það sé mjög mikilvægt að gera það verðum við líka að ráðast að rót vandans og til þess þurfum við oft virkilega að rýna í hverjir hvatarnir í samfélaginu okkar eru, hvers konar áhrif þeir hafa á fjölskyldur þar sem börnin okkar alast upp.