146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Ég held að við getum öll hér í salnum alla vega verið sammála um að við höfum áhyggjur af þessu og teljum að heilbrigðisráðherra ætti að ræða við menntamálaráðherra og að menntamálaráðherra ætti að ræða við heilbrigðisráðherra um þetta verkefni. Ég efast ekki um að núverandi menntamálaráðherra þekkir þennan vanda mjög vel enda stóð hann að því að leggja fram geðheilbrigðisstefnuna sem núverandi heilbrigðisráðherra ræddi sérstaklega í svari sínu.

Það sem einnig þarf að nefna og ég tel að einkenni þá tvo ráðherra sem við höfum rætt hér um, er að þeir hafa báðir unnið að verkefnum sem snúa að samhæfingu þjónustu og hvernig sé hægt að styðja betur við fólk í nærumhverfinu. Núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra var með verkefni varðandi Breiðholtið og þá vinnu sem Reykjavíkurborg hefur verið unnið varðandi skimun og fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi menntamálaráðherra var með hið svokallaða Akureyrarmódel sem lengi vel var vitnað til þegar kom að samhæfingu og samstarfi í nærumhverfinu.

Svo ég fái aftur að nefna hér þingsályktunartillögu sem Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, lagði fram ítrekað um gerð aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum barna og unglinga, þá eru forvarnir það fyrsta sem nefnt er þar. Ástæðan fyrir að við hvetjum hér til þessa samtals er að við viljum svo gjarnan vinna saman að því að koma í veg fyrir að börnin þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda, þegar vandamálið er orðið að sjúkdómi, orðið að verulegum vanda. Við höfum náð miklum árangri í forvörnum þegar kemur að neyslu áfengis og neyslu tóbaks. Við höfum unnið markvisst að því að tryggja að börnin okkar séu ekki jafn lengi úti á kvöldin, að þau eyði meiri tíma með fjölskyldu sinni. Þetta eigum við líka að geta gert. (Forseti hringir.) Ef tölurnar segja að börnin okkar sofi ekki nóg, reynum þá að tryggja að þau sofi meira. Ef þær segja að símarnir séu farnir að skaða þau, drögum þá úr notkun símanna með einum eða öðrum hætti.