146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dreif- og fjarnám.

97. mál
[17:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég lýsa því yfir að ég er mjög hlynntur því kennslufyrirkomulagi sem hefur verið kallað dreifnám og fjarnám. Það er sömuleiðis í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eins og hv. þingmaður og fyrirspyrjandi nefndi. Ég tel að þetta sé kjörin leið til þess m.a. að geta unnið að því að efla og styrkja menntunarstig á landsbyggðinni þar sem við erum í ákveðnum vandræðum með að geta boðið eins breitt nám og er í stærra þéttbýli.

Ég segi það líka í upphafi máls míns að ég er ekki kominn með neina fastmótaða skoðun á því hvernig eða hvort eigi að skilgreina formlega stefnu um dreif- og fjarnám. Þetta er mál sem þarf að ígrunda og gefa sér góðan tíma til að fara ofan í. Ef við horfum á framhaldsskólana sjáum við að þetta hefur verið vaxandi hluti af því námi sem þar er veitt, þ.e. á framhaldsskólastiginu. Það má í raun segja að þetta sé ein tegund, tiltekin aðferð, við kennslu. Þess sér ekki endilega stað í skipulagi einstakra skóla heldur fyrst og fremst í náms- eða kennsluáætlunum um einstaka námsáfanga. Nemendur sitja þá að minnsta kosti að hluta til í kennslustundum.

Nokkrir framhaldsskólar hafa skipulagt sérstakt framboð námsáfanga þar sem eingöngu er stundað fjarnám og nemendur koma sjaldan eða aldrei í viðkomandi skóla. Þeir skólar sem hafa verið virkastir í þessu eru Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Verslunarskólinn og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Í þeim skólum er umtalsvert námsframboð í fjarnámi og á haustönn 2016 voru samtals 1.700 nemendur sem nýttu sér framboð þessara skóla. Þar af voru um 1.100 í Fjölbrautaskólanum við Ármúla eða um 65% allra framhaldsskólanema í fjarnámi.

Þarna er um að ræða hlutanám hjá flestum nemendum og stunda þeir að meðaltali nám í tveimur áföngum í senn. Brotthvarf er töluvert, eða um 40%, í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og um 30% í hinum skólunum.

Svo hafa komið inn fleiri framhaldsskólar. Ég vil nefna sérstaklega Menntaskólann á Tröllaskaga og Menntaskólann á Egilsstöðum. Hins vegar hefur orðið til sjálfsprottið fyrirbæri sem kallað er fjarmenntaskólinn á árinu 2012 þar sem er samstarf 13 framhaldsskóla á landsbyggðinni. Nú eru u.þ.b. 500 nemendur í þeim skóla en allt í allt eru um 100 ársnemendur.

Dreifnám er dálítið annað. Það er hugsað til að auðvelda nemendum á smærri stöðum eða byggðarlögum að búa áfram og lengur í heimabyggð. Þar hefur verið í forsvari Fjölbrautaskólinn á Norðurlandi vestra á Sauðárkróki, og þetta er rekið á Hvammstanga, Hólmi og á Blönduósi. Við þekkjum þetta líka í kringum Laugaskóla. En dreifnámið er þá einhvers konar blanda af fjarnámi og staðarnámi á framhaldsskólastigi. Það er alveg klárt mál að margir kostir eru í þessu.

En ef ég stekk aðeins inn í háskólann líka eru nemendur í fjarnámi á háskólastigi árið 2015 um 3.000 manns, 15% allra háskólanema. Þar af voru flestir í Háskóla Íslands, 1.420, eða 10% af nemendum skólans. Við Háskólann á Akureyri var um helmingur nemenda í fjarnámi, 65% á Hólum og á Bifröst er hlutfallið komið í 80%. Það eru hraðar framfarir, fyrst og fremst á sviði tækni- og kennslufræði, sem hafa leitt til þess að nýjar aðferðir hafa verið þróaðar. Við sjáum ekkert fyrir endann á því.

Þegar spurt er um forsendur þessa, hvernig þetta vaxi og dafni, er líka, og ber að geta þess, í gangi samstarfsnefnd opinberra háskóla sem hefur staðið fyrir samstarfsverkefnum á milli háskóla, m.a. á þessu sviðinu. Meginatriðið í þessu, þegar við erum að ræða fjarnámið, er grundvallaratriði í mínum huga að samhliða þróun þessa fjarnáms megum við ekki hvika frá hugsuninni um háskólana. Þar er meginverkefnið að skapa sterkt og lifandi lærdómssamfélag. Það er lagt upp úr því að fólk eigi samtal og samvistir í rauninni, það er hinn félagslegi þáttur námsins.

Hvað varðar fjárveitingar þá kemur það fram í fjármálaáætlun til ársins 2021. Þar er sett fram stefnumiðið fyrir þetta. Gert er ráð fyrir að fjárframlög til framhaldsskólanna hækki umfram verðlagsforsendur á árunum 2017–2021 og háskólarnir hafa sömuleiðis verið með ákveðna fjárveitingu inni í þessu þótt hún sé ekki sérgreind, nema hjá Háskólanum á Akureyri sem hefur fengið sérstaka fjárveitingu til að undirbúa og fullvinna þróun í fjarkennslu og (Forseti hringir.) það framhald verður metið á árinu 2018.