146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dreif- og fjarnám.

97. mál
[17:33]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Hér á eftir fara fram umræður um samgönguáætlun, sóknaráætlanir, byggðaáætlun og svo framvegis. Allt gott um það að segja. Sú umræða sem hér er um dreif- og fjarnám, tengist að sjálfsögðu því sem fjallað verður mjög mikið um á eftir. Hér er á ferðinni einhver stærsta og öflugasta byggðaaðgerð sem hægt er að fara í, þ.e. að koma háskólanámi út til hinna dreifðu byggða.

Á Austurlandi, hef ég fyrir satt, er staðan þannig að 80% háskólanema flytja þaðan burt. Ég þori ekki að fara með hversu hátt hlutfall af því fólki kemur aftur en það er allt of lágt. Við vitum líka að meginþorri háskólanema eru konur. Það væri sérstaklega mikilvægt og aðkallandi að þær gætu sinnt sínu námi heiman frá því að möguleikar þeirra eru oftar en ekki afgerandi faktor þegar kemur að því hvar fólk velur sér búsetu.