146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kjör og staða myndlistarmanna.

125. mál
[17:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svör hans. Það sem ég myndi vilja nefna sérstaklega er að mér finnst mjög þakkarvert að ráðherrann skuli hafa tjáð sig svo skýrt undanfarið um t.d. húsnæðismál Listaháskólans. Það er mjög mikilvægt að við búum betur að listnámi, og í raun því sem ég vil kalla verk- og listnámi á Íslandi. Við höfum ekki gert það nægilega vel. Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega fjármuni almennt til að styrkja beint en það skiptir mjög miklu máli að við eflum námið.

Ég vil hins vegar líka fá að nefna sérstaklega styrki og kynjahlutföll og hef beint fyrirspurn til ráðherrans varðandi það og vonast eftir að fara að sjá skriflegt svar við henni. Ég tel að það sé mjög mikilvægt þegar við hugum að því að bæta kjör og styrkja ákveðin verkefni (Forseti hringir.) að þar sé líka hugað að kynjajafnrétti og tryggt, eins og við höfum séð að hefur ekki alltaf verið, að þar standi bæði kynin jafnt.