146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kjör og staða myndlistarmanna.

125. mál
[17:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég við þakka hæstv. ráðherra svörin og þingmönnum fyrir þátttökuna í þessari umræðu sem ég tel að sé gríðarlega mikilvæg í raun. Við erum sem betur fer böðuð í afurðum lista á hverjum einasta degi í öllum okkar verkum. Það er það sem við þurfum að halda til haga, list er ekki afgangsstærð í neinum skilningi heldur partur af sterku og öflugu og sjálfbæru menningarsamfélagi. Um það þurfum við að vera meðvituð. Þess vegna gildir um það eins og aðra þætti heilbrigðs samfélags að markaðslögmálin duga ekki til þess að halda þeim til haga heldur þurfum við, eins og hér hefur verið bent á af ýmsum þingmönnum, að halda gildi menningar og lista til haga í sjálfum sér og mikilvægi þess sem næringu fyrir aðra þætti samfélagsins.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra talar um að auka jafnvægið milli listgreina og styrkja þar með stöðu myndlistar. Ég held að það séu ákveðin skilaboð sem koma út úr þessari umræðu. Ég virði honum til vorkunnar að hafa í raun og veru ekki haft mjög langan tíma til að kynna sér nákvæmlega það viðfangsefni sem hér er spurt um, þ.e. verkefnið Við borgum myndlistarmönnum, sem er leið myndlistarmanna til að koma að borðinu með ábyrgum hætti, ekki bara segja: Hér þarf að gera eitthvað, heldur eru með útlínur og hugsaða leið til þess að gera þetta með öflugri hætti en verið hefur. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að hann muni taka vel kalli Samband íslenskra myndlistarmanna eftir samtali við ráðherrann um afstöðu hans og útfærslu, mögulega, á þessu tiltekna verkefni.

Mig langar hér alveg í lokin að spyrja hæstv. ráðherra um afstöðuna til listskreytingasjóðs sem snerist um að 1% af byggingarkostnaði opinberra bygginga fór til listskreytinga í hverri byggingu fyrir sig. Við vitum að okkur líður betur í byggingum þar sem list hefur verið í öndvegi frá fyrsta degi. (Forseti hringir.) Það gildir ekki síður um skóla og uppeldisstofnanir sem við þekkjum margar hverjar. En ég vil spyrja um stjórn listskreytingasjóðs og afstöðu hæstv. ráðherra til starfsemi sjóðsins.