146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kjör og staða myndlistarmanna.

125. mál
[17:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Svo ég reyni að svara síðustu fyrirspurninni óundirbúið minnir mig að það sé áskilnaður í öllum útboðum ríkisins um opinberar byggingar um listskreytingar og að þetta ákvæði hafi leyst af hólmi þann sjóð sem listskreytingasjóður var á sínum tíma þannig að hlutverk stjórnar listskreytingasjóðsins í dag er fyrst og fremst að fylgja því eftir að unnið sé á grundvelli þessarar stefnumótunar hins opinbera.

Varðandi það sem hér hefur verið sagt um gildi myndlistar og lista almennt tek ég undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram varðandi mikilvægi þessa listforms í samfélagi okkar, hvort heldur það er til að gleðja okkur eða rífa okkur út úr raunveruleikanum og láta okkur sjá hlutina í nýju ljósi. Þetta er gríðarlega mikilvægt og er mér mjög kært. Í mínum huga er listin ekki afgangsstærð eins og hv. fyrirspyrjandi lýsti yfir og með sama hætti get ég fyllilega tekið undir það sem hér kom fram og var orðað með þeim hætti að myndlistin væri spegill samfélagsins.

Það sem snertir hins vegar það sem hv. þm. Logi Már Einarsson nefndi um greiðslur til myndlistarmanna: Gott og vel, en við þurfum þá líka að tengja það öðrum þóknunum til listamanna. Ég gæti spurt: Ættu sömu listamenn að geta gert allt í senn, notið verkefnastyrkja úr myndlistarsjóði, starfslauna úr starfslaunasjóði og síðan þóknanna frá listasöfnum vegna sýningar o.s.frv.? Það sem ég er að segja er að við þurfum að skoða þetta allt í heildarsamhengi áður en við stökkvum á einhverja eina útfærslu.

Að lokum þakka ég kærlega fyrir umræðuna.