146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

málefni Háskóla Íslands.

127. mál
[18:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessar fyrirspurnir, sem eru ansi ítarlegar, og líka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Það sem ég vildi fá að segja í tengslum við þessa umræðu er að ég tek undir með síðasta ræðumanni um mikilvægi þess að mörkuð sé stefna. Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að sú stefna eigi að miðast við eitthvert ákveðið meðaltal útgjalda. Við hljótum að ætla okkur að ná fram ákveðnum markmiðum, einhverjum árangri, gæðum með því að setja í þetta fjármuni. Það er ekki endilega samasemmerki á milli þess að vera með ákveðna krónutölu og að við fáum eitthvað betra í kjölfarið. Við sjáum þegar við horfum á mælikvarða um heilbrigðiskerfið okkar að í samanburði við fjölmargar aðrar þjóðir setjum við í það minni pening en náum mun meiri árangri. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að við höldum áfram að bæta gæði menntakerfisins, tryggjum að til sé fjármagn til að halda úti sómasamlegri fjarkennslu og tryggjum þar af leiðandi líka gæðin og hugsum hvers konar menntun við bjóðum nemendum okkar upp á.