146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

málefni Háskóla Íslands.

127. mál
[18:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður var að enda við að segja. Mig langar aðeins að koma inn á það sem ráðherra nefndi varðandi úttekt. Mér heyrðist hann segja að gera ætti úttekt 2019. Ég velti fyrir mér af hverju við þurfum að bíða svo lengi. Ég held að mikil þörf sé á því að fara í þetta strax til þess að greina það vel. Hæstv. ráðherra sagði einnig að útfærslan varðandi aukna fjármuni eða fjármuni í háskólakerfið yrði gerð í fjármálaáætlun. Nú er það svo að við erum að fjalla um fjármálastefnu næstu fimm ára. Þar er a.m.k. ekki komið til móts við þær kröfur sem rektorarnir hjá háskólunum sameinuðust um að gera, þ.e. þeir gerðu ráð fyrir að þeir þyrftu í kringum 2 milljarða á ári næstu árin. Stefnan sem við fjöllum um í dag nær engan veginn utan um það. Ég spyr ráðherrann með hvaða hætti hann telji að við getum náð utan um þetta, náð meðaltali (Forseti hringir.) OECD á næstu fimm árum.