146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

starfsumhverfi bókaútgáfu.

139. mál
[18:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrirspurnina og hæstv. ráðherra svörin. Þar var ýmislegt jákvætt en annað aðeins loðnara eins og gengur. Sjálfur tel ég að svarið við þessu sé ekki endilega afnám einokunar á útgáfu námsbóka. Ég held að þetta sé nú örlítið flóknara en það.

Sannast sagna var ég pínulítið hissa þegar þáverandi hæstv. ríkisstjórn ákvað að hækka virðisaukaskatt á bækur og mat. Mér fannst það pínulítið skrýtin forgangsröðun. En það er gott að heyra að hæstv. ráðherra sé baráttumaður í þessum málum núna því að bóksala hafði alveg dregist saman 2014 þegar þetta var gert.

Hæstv. ráðherra vísar í fjármálaráðherra og að hann fari með vaskmálin. Það er vissulega satt og rétt. En ég heyrði ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra boðaði sína sýn á að það yrði eitt (Forseti hringir.) virðisaukaskattsþrep, í kringum 18%. Það þýðir nú hækkun á virðisaukaskatti á bækur. Vissulega eru þessi mál hjá hæstv. fjármálaráðherra en ég minni hæstv. menntamálaráðherra á að ríkisstjórnin hefur bara eins manns meiri hluta og ef hann tekur höndum saman við stjórnarandstöðuna getum við kannski hjálpað honum við að koma [Hlátur í þingsal.] þessum málum áfram.