146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

starfsumhverfi bókaútgáfu.

139. mál
[18:29]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera þetta góða mál upp og hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni. Við Íslendingar höfum talið okkur vera menningar- og bókaþjóð í gegnum tíðina. Við höfum hagnýtt bókina með svipuðum hætti og við gerum flest í dag, sennilega í gegnum nokkrar aldir, á pappír.

Nú hefur rutt sér til rúms ný tækni. Unga fólkið velur sér gjarnan rafrænar bækur. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að ívilna rafbókaútgáfu. Við höfum verið heldur seinir, Íslendingar, í því að gefa út íslenskar bækur á rafrænu formi, kannski seinni en margar aðrar þjóðir, enda erum við lítið málsamfélag, en vernd tungunnar er okkur (Forseti hringir.) mikilvæg. Svo er þetta líka kostnaðarlegt atriði, ég tala nú ekki um að við þurfum að höggva færri skóga til þess að gefa út rafbækur.