146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

starfsumhverfi bókaútgáfu.

139. mál
[18:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað.

Hæstv. ráðherra sagði að þó að hann færi ekki með málefni virðisaukaskatts myndi hann vilja beita sér fyrir því að bækur færu í raun í þann flokk að þær bæru ekki virðisaukaskatt. Ég fagna þeirri yfirlýsingu. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kolbeini Proppé að hæstv. fjármálaráðherra talaði með þeim hætti í dag að hann vildi fremur stefna að einu virðisaukaskattsþrepi, sem ég tel ekki góð tíðindi fyrir bókaútgáfu.

Þetta eru auðvitað svakalegar tölur sem við sjáum, 48% samdráttur á átta árum. Það er gríðarlegur samdráttur. Það minnir okkur á, eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega, að við búum á litlu málsvæði. 330 þúsund manneskjur. Það kostar. Það kostar að viðhalda tungumálinu hér.

Við erum með ríkisfjármálaáætlun þar sem öll útgjöld eiga að rúmast innan hagsveiflunnar. Við erum með þá stefnu frá hæstv. fjármálaráðherra að það eigi bara að vera eitt virðisaukaskattsþrep og helst engar undanþágur. Þá eru bara tvær leiðir sem maður sér. Ef ekki á að ívilna bókaútgáfunni með skatti þá þarf að koma til aukinn opinber stuðningur. Það verðum við að horfa á ef við miðum við stöðuna eins og hún er núna, að það verði í gegnum aukinn þátt listamannalauna, fleiri nýræktarstyrki, aukinn stuðning við þýðingar, þ.e. ef við viljum ekki að skattumhverfið sé eins hagkvæmt og mögulegt er þurfum við að horfa í það að hið opinbera þarf að koma meira að þessum málum. Því að það kostar að tala íslensku. Og hluti af því að tala íslensku er ekki bara að við getum talað við tölvur, eins og við höfum talað talsvert um og eigum kannski eftir að tala meira um við hæstv. ráðherra, heldur líka að verið sé að semja nýtt efni á íslensku. Það er algert lykilatriði, ekki síst fyrir börn og ungmenni. Það er mikilvægt fyrir alla aldurshópa en ekki síst fyrir börn og ungmenni, að þau fái bækur á íslensku (Forseti hringir.) sem gerast í samfélagi þeirra og þeirra heimi.

Ég hvet hæstv. ráðherra líka til dáða og vona að við eigum von á einhverri aðgerðaáætlun frá honum í þessum efnum.