146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Öðruvísi mér áður brá, verð ég nú að segja. Hógvær er hann hæstv. ráðherra. Ég get nú sagt honum að hann fær væntanlega stuðning meiri hluta þingmanna við það að breyta samgönguáætlun, þ.e. að fjármagna hana. En ég verð að segja það í ljósi þess sem hér var sagt varðandi fjárlagaafgreiðsluna í desember að hæstv. ráðherra veit vel að hún var með ákveðnum formerkjum. Hún var með þeim formerkjum m.a. að Dettifossvegur skyldi fjármagnaður, ekki gleyma því. Að taka 170 milljónir úr tengivegum til þess að setja í Dettifossveg er til háborinnar skammar. Og það að ráðherra ætli að taka hér einhverjar tilteknar ákvarðanir einn og sér getur auðvitað ekki verið ásættanlegt.

Varðandi það að setja eitthvað í fjáraukalög þá veit ég ekki betur en að hæstv. félags- og jafnréttisráðherra sé að segja okkur varðandi fyrirséða stöðu í húsnæðismálum að hann ætli að fjármagna hana með viðbótarfjármagni. Það er fyrirséð að innviðir eru í molum. Við (Forseti hringir.) þekkjum það vel í samgöngum, Alþingi samþykkti þessa áætlun vegna þess að þetta var það lægsta sem við gátum gert, það minnsta.

Þannig að ég spyr ráðherrann aftur hvort hann (Forseti hringir.) telji ekki að það sé hægt að fjármagna þessa samgönguáætlun með viðbótarheimild. Ég minni á að Dettifossvegur (Forseti hringir.) var inni í samkomulagi sem mér heyrist að ráðherrann ætli að svíkja.