146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

fjárveitingar til sóknaráætlana landshluta og hlutverk þeirra.

122. mál
[19:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langar að eiga samtal við ráðherra en vil byrja á að segja að daginn eftir að ég sendi fyrirspurnina inn kom leiðrétt fylgirit fjárlaga sem breytti myndinni örlítið. Ég ætla nú samt að segja að þegar samningar um sóknaráætlanir voru undirritaðir var öllum ljóst að til þess að hægt væri að reka slíka samninga almennilega þyrfti að auka fjármagnið umtalsvert.

Í 12. gr. samningsins er beinlínis kveðið á um þetta, þ.e. með leyfi forseta:

„Samningsaðilar skuldbinda sig til að vinna að því að auka ráðstöfunarfé til samningsins á samningstímanum.“

Það má ekki gleyma því að fjölmennur samráðsvettvangur með heimamönnum kemur að málum sem og fagleg og hlutlæg úttekt, m.a. úr uppbyggingarsjóði, þar sem gerðar eru allra ýtrustu kröfur um hæfi, aðstoð við umsækjendur og að alls jafnræðis sé gætt og síðast en ekki síst er um tímasettar vörður að ræða til þess að ná markmiðum sóknaráætlunar í áhersluverkefnum sem þau hafa sett sér.

Öll landshlutasamtök hafa frá upphafi lagt áherslu á að sóknaráætlun væri ætlað stórt hlutverk og þess vegna yrði að auka fjármagn. Hafa fulltrúar sveitarfélaga ítrekað rætt það, meðal annars við okkur sem sitjum í fjárlaganefnd, en ekki síður þegar við þingmenn höfum farið um kjördæmin. Í ályktun til þingmanna 9. nóvember 2015 frá þessum aðilum segir:

„Á undanförnum árum hefur verið lyft grettistaki bæði af hálfu Stjórnarráðsins og landshlutasamtaka til ná markmiðum um samþættingu áætlana og aukið samstarf með samningi um sóknaráætlun. En ef markmið þessi eiga að nást, verða aðgerðir að fylgja orðum. Það fjármagn sem nú er ætlað til sóknaráætlana nægir engan veginn til að hægt sé að setja af stað afgerandi verkefni á sviði nýsköpunar, menningar og atvinnu- og byggðaþróunar. Landshlutasamtökin skora á alþingismenn og ráðherra ríkisstjórnarinnar að standa vörð um þetta brýna hagsmunamál landsbyggðanna með því að tryggja það fjármagn sem lofað var í upphafi þessarar vegferðar.“

Það hefur verið ítrekað á öllum fundum samtaka með stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál og þingmönnum og ráðherrum málaflokksins. Nú ber svo við að ekki er gert ráð fyrir neinni aukningu til sóknaráætlunar á næstu fimm árum þrátt fyrir að í fjárlögum sé lögð áhersla á sóknaráætlanir. Sóknaráætlanir landshluta fá nú 402,5 millj. kr. í fjárlögum 2017 en fengu 208,5 millj. kr. í fjárlögum 2016. Byggðaáætlun fékk 430,6 millj. kr. en fær núna 578,6 millj. kr. Þetta sýnir okkur að allt samningstímabilið er óbreytt næstu fimm árin.

Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra: Í ljósi þess að nú er verið að auka töluvert fé í byggðaáætlun, er ætlunin að slá margar flugur í einu höggi og taka eitthvert fé úr byggðamálaliðnum, sem er jú ætlað að fjármagna ólík svið, meðal annars ljósleiðaravæðinguna og fleira? Ef svo er, hvers vegna er það ekki bara sett beint í sóknaráætlanir? Það lítur út fyrir að sóknaráætlunarsamningarnir séu miklar umbúðir utan um lítinn pakka. Maður hefur á tilfinningunni að landshlutarnir fái með þessu pínulitla dúsu, (Forseti hringir.) því að ekki fylgir hugur máli. Og ef sóknaráætlanir eiga að vera raunverulega valdeflandi hreyfiafl fyrir hinar dreifðu byggðir verðum við að bæta í því að mörg verkefni eru nú þegar komin af stað og bíða þess að fá fjármagn. Og önnur verkefni er ekki hægt að setja í gang meðan ekki er veitt meira til.