146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

fjárveitingar til sóknaráætlana landshluta og hlutverk þeirra.

122. mál
[19:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð nú að segja að mér fundust þau frekar innihaldsrýr. Farið var yfir markmið og tilgang sóknaráætlana sem mér er vel kunnugt um. Og varðandi tölulegan mismun er ég með tölur úr fylgiriti fjárlaga sem er uppfært og nýtt. Þar stemma þessar tölur, þ.e. samningarnir. Og svo ég segi það hérna þá er sóknaráætlun Suðurlands með 64,2 milljónir frá 2016–2019, sóknaráætlun Austurlands með 50,7 millj. kr., líka út tímabilið. Þetta eru mjög lágar fjárhæðir. Þetta eru samningarnir um sóknaráætlanirnar. Allt of lítil hækkun. Í ljósi þess hve mikil áhersla er lögð í fjárlagafrumvarpinu á að þunginn sé í þessu og í ljósi þess hvernig að þessu er staðið og ánægjunnar sem orðið hefur með þessa leið, þá getur maður ekki annað en tekið undir með þeim í sveitarfélögunum sem hafa gagnrýnt að þetta sé allt of lágt, eins og ég las upp áðan. Þetta er engan veginn nægjanlegt til þess að ná utan um þau verkefni sem þarna eru.

Ég spyr ráðherrann aftur hvert hann telji vera hlutverk sóknaráætlana í byggðamálum yfirleitt, því að þegar við höfum farið um kjördæmið sér maður á þeim verkefnum sem þó hafa fengið framgang í gegnum sóknaráætlun, að það er mjög mikilvægt. Ég hef líka gagnrýnt að sum mál fara í gegnum sóknaráætlun sem mér fyndist að ættu að vera á öðrum stað, t.d. eins og dreifnám, mér dettur það í hug. Á Hvammstanga var það fjármagnað í gegnum sóknaráætlun meðan það var ekki gert á Þórshöfn og svo framvegis. Allir eru að reyna að búa sér til einhverja stöðu.

Þótt sóknaráætlanir séu ekki upphaf og endir alls, og við þurfum líka að passa okkur á að fjármögnun til landsbyggðarinnar, hverju nafni sem hún nefnist, á ekki öll að fara í gegnum sóknaráætlun, er þetta samt mikilvægt (Forseti hringir.) tæki sem allir, þvert á flokka, eru ánægðir með. Mér finnst það ekki í samræmi við áherslurnar sem lagðar eru í frumvarpinu hversu lítið er lagt í þetta.