146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

fjárveitingar til sóknaráætlana landshluta og hlutverk þeirra.

122. mál
[19:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt ef hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur finnst svar mitt vera heldur innihaldsrýrt. Ég rakti nú bara þetta um framlögin og svaraði spurningunni: „Hvers vegna voru fjárveitingar til sóknaráætlana landshluta lækkaðar frá fyrra ári í fjárlögum fyrir árið 2017 og hvert er viðhorf ráðherra til hlutverks þeirra í byggðamálum?“

Ég held að ég hafi rakið þetta ágætlega, nema hvað ég sýndi fram á að í þeim tölum sem ég fór yfir hafi framlögin alls ekki lækkað, þau hafa hækkað. Það er einhver misskilningur í þessum tölum á milli mín og hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Ég held að það geti þá legið í þessu sem segir hér, að vert sé að nefna að í framsetningu fjárlaga er fjármagn til sóknaráætlunarsamninga á fjárlagaliðum tveggja ráðuneyta og á fleiri en einum fjárlagalið. Við þurfum því kannski að skoða það betur.

En ég get alveg tekið undir það, eins og í svo mörgum málum, að það er þörf fyrir meira fjármagn á þessum vettvangi. Þarna kemur að þeirri forgangsröðun sem við höfum með þá takmörkun á fjármagni sem við erum með. Við vorum að fara yfir samgöngumálin áðan. Verkefnin eru mjög krefjandi.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði síðan, að sóknaráætlun væri ekki upphaf og endir alls. Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að horfa til þess hvaða tækifæri landsbyggðin getur haft á öðrum sviðum til að efla og styrkja stöðu sína. Ég vitna oft til þingsályktunartillögu sem samþykkt var í atvinnuveganefnd fyrir tæpu ári síðan sem var um nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi inn í hina löngu framtíð og hvernig við sjáum atvinnulífið þróast. Við náðum þar þverpólitískri sátt um hvernig við sæjum þá mynd, þingmenn allra flokka sem þar áttu sæti.

Ég held að þar höfum við gert okkur grein fyrir því að (Forseti hringir.) mikil tækifæri eru fyrir landsbyggðina. En til þess að þau geti orðið að veruleika þurfa innviðirnir að styrkjast og það á sérstaklega við um innviði dreifikerfis raforku, samgangna og fjarskipta.