146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

radíókerfi og fjarskiptakerfi.

137. mál
[19:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það var greint frá því á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar þann 26. janúar sl. að truflunum í almennum radíókerfum hefði fjölgað til muna hér á landi. Tafla sem birt er með þessari frétt sýnir að þetta hefur gerst á undanförnum tveimur árum. Þar sem radíókerfin eru mjög mikilvægur þáttur í samskiptum milli einstaklinga og einnig til að stjórna ýmiss konar mikilvægum stjórn- og samskiptabúnaði svo sem vegna flugumsjónar, vöktunar af ýmsu tagi, viðvörunar og boðunar til að mynda í heilbrigðiskerfinu og vegna náttúruvár, þá geta bilanir á radíókerfum haft mjög alvarlegar afleiðingar. Þróun þessarar bilanatíðni í radíókerfum er uggvænleg og felur í sér ákveðinn öryggisbrest. Því tel ég rétt að spyrja ráðherra hvernig hann telji að bregðast skuli við slíkum truflunum í almennum radíókerfum hér á landi og þeim nefnda öryggisbresti sem þeim fylgir.

Hin spurningin lýtur að þróun nettenginga og fjarskiptakerfa hér á landi, en þannig er að ráðist hefur verið í lagningu ljósleiðara hér á landi og verður að ætla að það lagnakerfi muni verða grunnþáttur í nettengingum og fjarskiptum hér á landi í fyrirsjáanlegri framtíð. En gangi áætlanir erlendra stórfyrirtækja eftir þá gæti orðið mögulegt að nota samband um gervihnetti til nettenginga innan fárra ára.

Þar með er forvitnilegt að fá skoðun ráðherra á því eða upplýsingar hjá honum um það hvort fylgst sé með þróun gervihnattatækni með markvissum hætti af hálfu íslenskra stjórnvalda. Einnig spyr ég hvernig best sé að tryggja fjarskiptaöryggi Íslendinga bæði innan lands og við umheiminn. Hvaða þýðingu telur hæstv. ráðherra að eignarhald á þessum fjarskiptabúnaði og flutningskerfum hafi í því sambandi?

Hér er því um að ræða tvær spurningar, annars vegar um það hvernig bregðast skuli við truflunum í almennum radíókerfum með tilliti sérstaklega til öryggissjónarmiða og svo hins vegar varðandi þróun nettenginga og fjarskiptakerfa með tilliti til nýrrar tækni og mögulegra nettenginga um gervihnetti.