146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[19:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Fyrir liggur tillaga frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem snýst um að Alþingi gefi framkvæmdarvaldinu skýrt merki um að við munum ekki sætta okkur við annað en að þetta nýja dómstig uppfylli jafnréttislög frá fyrsta degi. Það er árétting á því að jafnréttislög gildi um dómstólana, nokkuð sem taka hefur þurft sérstaklega fram tvívegis í texta þeirra laga sem hér stendur til að breyta. Sambærileg ákvæði og minni hlutinn leggur til voru á sínum tíma sett í 9. og 11. gr. laganna svo vilji löggjafans væri skýr varðandi tiltekin afmörkuð atriði. Nú eigum við að nýta þetta tækifæri til að sýna með skýrum og afgerandi hætti að það sé vilji löggjafans að vel takist til við skipan Landsréttar eins og gert er með tillögu okkar í minni hluta nefndarinnar.