146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[20:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég styð þessa breytingartillögu hjá minni hlutanum. Það má segja að það sé óvanalegt að ætla að setja hér inn að ráðherra skuli gæta að þeim lögum sem eru í landinu. Kannski má halda því fram að ég hefði ekki viljað styðja þessa tillögu nema vegna þeirra ummæla sem hafa komið frá ráðherra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég vona svo sannarlega og það er það sem mér hefur fundist svo gott að heyra frá meiri hlutanum sem greiðir atkvæði gegn tillögunni, að það kemur svo skýrt fram hjá Alþingi að við teljum að lög um jafnan stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eigi við um allar skipanir hjá ríkinu, líka dómstólum. Þó að þessi breytingartillaga verði felld held ég að það ætti að vera mjög skýrt nú til ráðherra og annarra sem munu koma inn með tillögur varðandi skipan dómara að við teljum að fullnægja eigi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla alls staðar.