146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er vert að halda því til haga þegar lögin eru svo flókin, eins og þau lög sem við erum að leiðrétta sem og önnur lög sem koma hingað inn í þingið — þau þurfa leiðréttingar við af því að af einhverjum ástæðum hafa mjög alvarlegar villur komist í gegn — að þegar þingið gerir mistök og lögin hafa núna staðið eins og þau eru með þessari meinlegu villu, þá greiddi Tryggingastofnun þrátt fyrir það út samkvæmt því sem talið var að lögin segðu til um.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig það er hægt að stofnanir, jafn stórar þær eru og með jafn mörgu fólki, geti farið í svona miklar aðgerðir eins og svona stórar greiðslur án þess að fara mjög ítarlega yfir þau lög sem fara á eftir. Ég hef áhyggjur af því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að það megi draga einhvern lærdóm af þessu máli. Hér er klukkan 20 mínútur yfir 8 þegar við erum að fara yfir þetta mál, enginn fjölmiðill er á staðnum, enginn að fylgjast með hvað við erum að gera og það á að drífa þetta mál mjög hratt í gegnum þingið og það á greinilega ekki draga neina lærdóma. Ef ég hef rangt fyrir mér langar mig að heyra afstöðu hv. þingmanns um það. Hvaða lærdóm ætlum við að draga af þessum mistökum?