146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 2. minni hluta velferðarnefndar, þ.e. þeirri sem hér stendur sem skipar annan minni hluta hv. velferðarnefndar.

Með lögum nr. 116/2016 voru gerðar viðamiklar breytingar á almannatryggingalögum, nr. 100/2007. Vinstri hreyfingin – grænt framboð studdi þær lagabreytingar hins vegar ekki. Í ljós hefur komið að við frumvarpssmíðina voru gerð mistök þannig að tilvísanir voru í rangar málsgreinar í 16. gr. laganna eins og lýst er í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar. Mistök þessi uppgötvuðust ekki fyrr en við birtingu laganna en þessum ákvæðum laganna hefur ekki verið fylgt heldur hafa lífeyrisþegar fengið greitt samkvæmt ætlun löggjafans. Bókstaflegur skilningur á þessum röngu tilvísunum mundi leiða til stóraukinna útgjalda ríkissjóðs.

Það hafa ýmis álitamál komið fram í meðferð nefndarinnar um málið, sér í lagi hvað varðar afturvirkni laga og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Sá möguleiki kann að vera fyrir hendi að þrátt fyrir lagabreytingu þá sem hér er fjallað um skapi ríkið sér skaðabótaskyldu.

Þó að 2. minni hluti hafi ekki stutt þær breytingar sem gerðar voru á almannatryggingalögum telur hann, eða hún í þessu tilfelli, engu að síður að ætlun löggjafans hafi komið fram í lögskýringargögnum og þá sérstaklega í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 116/2016. Sami skilningur á ætlun löggjafans sjáist einnig í umræðum á Alþingi og í samfélaginu og í umsögnum um frumvarpið.

Í ljósi þess sem að framan er sagt og þess að 2. minni hluti átti ekki aðild að breytingum sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar á síðastliðnu ári mun 2. minni hluti ekki greiða atkvæði með málinu en ekki heldur leggja stein í götu afgreiðslu þess.

Þetta er það sem segir í nefndarálitinu og því til viðbótar langar mig að bæta við að ég held að mikilvægt sé, því að ég held að enginn vilji að þessi staða, að svona mistök séu gerð, komi aftur upp, að læra af svona mistökum. Ég held að þar geti skipt máli hvernig vinnulagi við lagagerð er háttað á Alþingi. Ég held að það dragi allverulega úr líkum á svona mistökum ef lagabreytingar eru skrifaðar alveg út þannig að ekki sé einungis vísað í þær greinar sem á að breyta heldur sjái hv. þingmenn, ráðherrar og aðrir þeir embættismenn sem vinna alltaf með lagatextann hvernig greinin mun líta út ef af breytingunni verður. Ég held að þetta skipti máli varðandi vinnulagið sem og að skoða hvort ekki sé rétt að málsgreinar í lagatextum séu númeraðar þannig að ekki þurfti alltaf að reyna að telja út hvaða málsgrein er verið að vísa í hverju sinni heldur séu málsgreinarnar hreinlega númeraðar.

Ég held að almennt, óháð þessu máli, til þess að draga úr líkum á að svona mál komi upp myndi þetta hjálpa mjög til við það. Ég vil beina því til okkar allra og kannski ekki síst hv. forsætisnefndar að skoða útfærslu á því.