146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá 1. minni hluta velferðarnefndar.

Fyrsti minni hluti velferðarnefndar leggst gegn samþykkt málsins í óbreyttri mynd. 1. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með gildistöku 1. mars en ekki afturvirkt eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Mig langar að reifa aðeins gang mála innan nefndarinnar, því að við erum búin að vera að fjalla um þetta mál, og þau álitaefni sem komu fram í nefndinni sem áhugi var að fá svör við. Þau voru eftirfarandi: Hvort fyrirhuguð leiðrétting, sérstaklega með tilliti til afturvirkni laganna, standist stjórnarskrá eða geti mögulega varðað bótaskyldu ríkisins gagnvart ellilífeyrisþegum. Og í ljósi þess að Hæstiréttur almennt hefur talið að ekki megi skerða þegar stofnaðan rétt með afturvirkum og íþyngjandi hætti hvort afturvirk leiðrétting í þessu tilviki myndi teljast íþyngjandi.

Þau svör sem fengust voru að hægt væri að spyrja þessara spurninga í einni spurningu: Stofnuðust eignarréttindi með villunni í lögunum?

Þá kom fram í viðtölum við sérfræðinga sem mættu fyrir nefndina að almennt hefur Hæstiréttur áréttað margoft í dómum sínum að eignarréttindi verði ekki skert með afturvirkum eða íþyngjandi hætti og hafi stofnast eignarréttur sé um að ræða íþyngjandi reglu fyrir bótaþega. Það var talið mjög óvarlegt að fullyrða að þessi réttur hafi ekki stofnast með skýrum lögum sem kveða á um hið gagnstæða.

Mikið hefur verið rætt hér í pontu um réttmætar væntingar og fullyrti hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra fyrr í dag að engar réttmætar væntingar til frekari ellilífeyrisgreiðslna hefðu skapast. En svo má spyrja sig hvort þetta eigi við þegar farið er að fjalla um þessi mál í opinberri umræðu á Alþingi, þ.e. að í gildi séu lög sem heimila ekki skerðingar, hvort við það tímamark geti skapast réttmætar væntingar borgaranna um að laun í landinu gildi samkvæmt orðanna hljóðan.

Meðan allir eru sammála um að um mistök sé að ræða er eins og meiri hluti nefndarinnar gangi út frá því að til sé einhver sérstök undanþága gagnvart meginreglum í tilfellum mistaka þegar raunin er ekki sú. Mistök eru ekki lögfræðilegt hugtak. Þau eru hins vegar mjög teygjanlegt hugtak og virðist þetta frumvarp nýta sér það. Þar stendur eftir sú spurning: Er þetta leið sem við viljum fara í lagasetningu, að setja lög og svo kannski mögulega munu þau standa? Er þetta fordæmi sem við viljum skapa?

Meiri hluti nefndarinnar telur að lögskýringargögnin sýni fram á vilja og tilgang löggjafarinnar og að hann sé skýr og að lagatæknileg mistök sem urðu við setningu laga nr. 116/2016 séu augljós mistök og í ósamræmi við vilja löggjafans og tilgang löggjafarinnar. 1. minni hluti er sammála því að lögskýringargögnin sýni fram á vilja og tilgang en telur hins vegar að ekki sé hægt að ætlast til þess að fólk skoði lögskýringargögn til að kanna raunveruleg réttindi sín. Lagatextinn er skýr og lagatæknilegu mistökin eru ekki svo bersýnileg að 1. minni hluti telji mögulegt að almenningur geti áttað sig á að um augljós mistök sé að ræða. 1. minni hluti telur að lögin verði að gefa rétta mynd af réttarstöðu einstaklinga og að óæskilegt sé að leggja það á herðar almennings að sækja rétt sem hann augljóslega á. Þá komu þau sjónarmið fram fyrir nefndinni að lagatextinn sjálfur gæti skapað rétt þó að um mistök væri að ræða og þrátt fyrir að lögskýringargögn gefi annað til kynna. Fyrir þann hóp sem þetta varðar er þetta augljós íþyngjandi leiðrétting að því leyti að stæðu lögin óbreytt mundi hópurinn eignast betri rétt en hann fær nú gagnvart ríkissjóði.

Í áliti meiri hlutans kemur fram að hann telji að engar réttmætar væntingar til frekari ellilífeyrisgreiðslna hafi skapast og því hafi enginn orðið fyrir tjóni. 1. minni hluti telur út frá því sem fram kom hjá gestum nefndarinnar að spurning um réttmætar væntingar verði ekki fyrirstaða í bótamáli. Réttmætar væntingar eru ekki sterkt hugtak hér á landi. Eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar er mjög sterk og skal allar skerðingar á eignarrétti ávallt bæta. Mögulega er það ástæðan fyrir því að aðeins örfáir dómar hafa fjallað um réttmætar væntingar. Út frá lögunum eins og þau standa nú er ljóst að lögmætar væntingar hafa skapast hvað svo sem segja má um réttmæti þeirra.

Fyrsti minni hluti hefur verulegar áhyggjur af því fordæmi sem meiri hlutinn setur með afturvirkri lagasetningu og telur því mjög áhættusamt og óvarlegt að fallast á afturvirkni í þessu sambandi.

Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að veruleg áhætta væri á að ríkið væri bótaskylt vegna mistakanna. Verði niðurstaða dómstóla á þann veg getur Alþingi beðið álitshnekki í samfélaginu sem 1. minni hluti getur illa sætt sig við. Í ljósi þess og alls framangreinds leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

3. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Frú forseti. Mig langar að nýta tækifærið til að taka undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur og koma á framfæri einfaldri lausn sem gæti komið í veg fyrir svona mistök í framtíðinni. Upp kom sú tillaga að tölusetja almennt málsgreinar lagagreina, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur oft lagt til, að lögin verði unnin þannig að hægt sé að sjá hverju er verið að bæta við í frumvarp við vinnslu þess og hvað er verið að taka út úr því og hvernig það lítur út í sinni endanlegu mynd inni í lagatextanum. Þetta er svona svipað og það sem kallast „track changes“ í Word — afsakið slettuna, frú forseti. Mistök eru jú mannleg, en ef við getum ekki lært af þeim og bætt vinnubrögð fara villurnar að líkjast gáleysi frekar en mistökum.