146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[21:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þann 2. júní 2016 var samþykkt þingsályktunartillaga hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, mín og hv. þm. Ástu Guðrúnar Helgadóttur þar sem segir að þingskjöl sem birta skal í Alþingistíðindum, sbr. 90. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, verði gefin út á tölvutæku sniði þannig að lög, kaflar í lögum, lagagreinar, málsgreinar, málsliðir, töluliðir o.s.frv. verði aðgreinanleg með tölvutækum hætti.

Í fyrri ræðum höfum við einmitt talað um að hluti af vandanum sem skapaðist hérna var að við náðum ekki stóra samhenginu í breytingum á lögunum. Ef það hefði verið búið að ná markmiðum þessarar þingsályktunartillögu hefðum við haft aðgang að lögunum í samhengi. Mig langar að nýta tækifærið til að ýta á eftir þeim starfshópi sem forsætisnefnd á að skipa til þess að klára þá vinnu.

Aðeins um orð hæstv. formanns velferðarnefndar sem sagði áðan, með leyfi forseta: „Við erum að árétta vilja löggjafans.“

Ég skil það mjög vel, en á sama tíma dettur mér í hug mál sem við afgreiddum sem fjallaði allt um vilja löggjafans og lögskýringargögnin í raun og veru. Þá get ég ekki annað en hugsað: Voru sömu mistök gerð þar? Það var ekki lagagrein í lögum um nefnd um hæfni dómaraefna sem kveður á um jafnan rétt kynjanna. Þar af leiðandi er engin lagagrein sem lögskýringargögnin eiga við, þ.e. það er ekkert að útskýra. Af hverju að fara í lögskýringargögnin þegar það er engin lagagrein til þess að útskýra? Að sama skapi var hérna lagagrein á röngum stað og það var ekkert að útskýra við hana í rauninni, þannig að ekki þurfti að leita í lögskýringargögnunum varðandi þá grein.

Mér finnst þetta ískyggilega sambærilegt. Eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson rakti með kjararáð eru öll þessi mál keimlík. Það er náttúrlega lagatexti og vilji löggjafans. Það er á gráu svæði, fram og til baka, hvort á við, lögskýringin eða lagatextinn. Það er eitthvað sem við þurfum að bæta.