146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[21:10]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Þessi lög voru samþykkt áður en ég kom inn á þetta þing. Það væri í sjálfu sér gaman og auðvelt að geta þvegið hendur sínar á þeim forsendum og með þeim hætti.

Mig langar aðeins að koma inn í þessa umræðu. Ég skil vel þörfina til að koma upp og ræða þetta á þeim forsendum að hér sé um mistök að ræða og auðvitað að það sé bagalegt og allt það, en mig langar að koma að ákveðnu hugtaki sem heitir þjóðarhagur. Í þessu samhengi finnst mér enginn vafi leika á því hvar hann liggur. Hér er verið að ræða um mögulega breytingartillögu við þá tillögu sem lögð er fram og sama hvað okkur finnst um hluti eins og afturvirkni laga eða slík háleit hugtök þá er það annaðhvort þannig að sú lagabreytingartillaga sem lögð er fram eykur líkur á því að viðkomandi dómsmál, ef slíkt dómsmál yrði höfðað, myndi vinnast eða hún minnkar líkur á því.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom hér og spurði áðan: Hvaða áhrif hefur í rauninni þessi breyting? Ég held að hv. þm. Halldóra Mogensen hafi nokkurn veginn svarað því í ræðu sinni þar sem hún talaði fyrir breytingartillögunni, að það væri líklegast meiri réttur fyrir hendi ef slík breytingartillaga yrði ekki samþykkt.

Út frá sjónarhorni þjóðarhags finnst mér, þótt það sé líklegast ekki hlutverk sem neinum finnst skemmtilegt að þurfa að standa í, að leiðrétta svona mistök með þessum hætti, algjörlega augljóst hver rétta afstaðan í þessu máli er.