146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Í störfum þingsins er það helst í dag að við erum með á dagskrá mál um verslun með áfengi og tóbak o.fl., eftir að þessum lið um störf þingsins lýkur, og svo er þriðja mál á dagskrá um kjararáð, lækkun launa til samræmis við launaþróun frá 2013. Þingmenn Pírata settu það mál á dagskrá sem forgangsmál þingflokksins. Það verður rætt á eftir ef við komumst í það eftir alla áfengisumræðuna. Ef dagskrártillaga væri borin upp núna myndi hún ekki koma til atkvæða fyrr en í lok fundar eða í byrjun næsta fundar. Mér er sagt að rökstudd dagskrá, sem er önnur leið þingmanna til að hafa áhrif á dagskrána, myndi ekki koma til umræðu fyrr en í lok umræðu um áfengi í búðir. Ég vona að það sé vilji þingheims að taka málið um kjararáð á dagskrá í dag sem þriðja dagskrármál.

Hverju stöndum við frammi fyrir? Mér leiðist ekkert að segja það í þessum þingsal og minna þingmenn á að 70% kjarasamninga gætu farið í uppnám í kvöld. Þingheimur hefur haft nógan tíma; við vorum með dagskrártillögu fyrir helgi, á fimmtudaginn, sem var felld. Þetta eru 100 kjarasamningar. Ef þeir fara í uppnám þá byrja verkföllin með vorinu. 100 kjarasamningar. Þá er nú svolítið erfitt fyrir þingheim að segja: Við ætlum að setja lög á verkföll ykkar þegar þið eruð að biðja um sömu launahækkun og við fengum í þinginu og aðrir ráðamenn í landinu, en við vorum ekki tilbúin til að setja lög til þess að leiðrétta, þannig að við fylgjum almennri launaþróun sem ráðamenn. Það er það sem þingmál Pírata um kjararáð snýst um, að laun ráðamanna fylgi launaþróun landsmanna. Lögin segja að það eigi að vera svoleiðis, lögin sem allir þingmenn samþykktu um jólin. Kjararáð fór fram úr sér, dómstólaleiðin er of hæg, þetta er hjá Alþingi.

Þeim sem lásu grein í Viðskiptablaðinu frá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem ég sendi á alla þingmenn fyrir helgi, ætti að vera það alveg ljóst hver staðan er og hver ábyrgðin er. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á Alþingi er unnt að bregðast við úrskurði kjararáðs, þar er unnt að leiðrétta vitleysuna, þar er unnt að tryggja að ekki verði upplausn á vinnumarkaði.“

(Forseti hringir.) Þetta eru skilaboð til okkar. Ég vona að við getum byrjað að ræða kjararáð núna og kannski bara klárað það. Ef það væri vilji til þess þá væri það hægt, ég efast um það, en það væri hægt.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna