146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að segja að forsætisráðherra hefur ekki enn þá svarað spurningum um brot á siðareglum. En það er ekki það mál sem ég ætla að fjalla um í dag heldur eru það kennarar.

Samkvæmt Hagstofu Íslands voru árið 2011 um 4.500 kennarar með kennsluréttindi starfandi í grunnskólum landsins. Á sama tíma voru rúmlega 9.000 með réttindi sem grunnskólakennarar. Nú eru útskrifaðir færri en þeir sem fara á eftirlaun. Að auki fer einhver fjöldi kennara til annarra starfa, aðallega eftir fyrsta starfsárið, sem er glatað tækifæri.

Til þess að geta starfað sem kennari þarf réttindi eða undanþágu. Nú er svo komið að eftir sögulega lægð í fjölda undanþágna árið 2011–2012, en þá voru 56 undanþágur samþykktar, eru þær komnar upp í 270. Næstum fimmföldun á sex árum. Nýútgefin skýrsla Ríkisendurskoðunar segir að ekki dugi að fjölga kennaranemum, einnig verði að ná þeim aftur inn í skólana sem eru þegar kennaramenntaðir. Annars verður alvarlegur kennaraskortur strax árið 2031, eins og kemur fram í niðurstöðum Helga Eiríks Eyjólfssonar meistaranema og Stefáns Hrafns Jónssonar, prófessors við Háskóla Íslands, tæplega 7.000 kennarar miðað við um 9.000 í dag.

Með meiri fólksfjölgun er meiri þörf fyrir kennara. Þá þyrftu um 70% allra kennara að vera starfandi sem slíkir til að manna allar stöður. Í dag er það tæpur helmingur. Árið 2031 er ekki fjarlæg framtíð. Það tekur fimm ár að klára nám í dag. Vandamálið verður að leysast á þessu kjörtímabili.

Þetta var fullt af tölum. Þótt þær séu mikilvægar er enn mikilvægara að hafa gott menntakerfi. Án menntaðra kennara erum við ekki með menntakerfi, hvort sem það er í opinberum rekstri eða einkarekstri. Óháð því hvaðan fólk kemur í pólitíkinni verðum við að vera sammála um það. Gott menntakerfi þarfnast kennara. Nemendur þarfnast kennara. Virði góðs kennara verður ekki mælt í peningum. Það sem góður kennari skilur eftir sig er ómetanlegt.


Efnisorð er vísa í ræðuna