146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta mál kemur hér fyrir en ég vona svo sannarlega að það sé í það síðasta, að þetta þurfi ekki að verða eilíft baráttumál Sjálfstæðismanna hér á þingi og annarra þeirra sem kjósa að fylgja því. Ég er nýkomin úr kjördæmaviku eins og aðrir þingmenn og er vert að geta þess að hvort sem það voru skólameistarar eða heilbrigðisstarfsmenn sem við hittum, bæði fyrir austan og eins fyrir norðan, lagði það fólk allt áherslu á að þetta mál færi ekki í gegn. Ég tilheyri líka hópi talsmanna barna og við höfum fundað með ungmennaráðum þeirra aðila sem að því standa, þ.e. Unicef, umboðsmanni barna og Barnaheillum. Það unga fólk sem við höfum talað við hvetur til þess að þetta verði ekki samþykkt. Það fer kannski að þrengja að og ég tala nú ekki um þegar 75% þjóðarinnar, samkvæmt síðustu skoðanakönnunum, eru ekki hlynnt þessu máli. Stuðningurinn virðist heldur ekki vera til staðar í röðum Sjálfstæðismanna miðað við þá sömu könnun. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað annað en sá hvati sem virðist fylgja versluninni sem í þessu er. Það er vissulega athugunarvert að leyfa sér að hunsa allar þær faglegu athugasemdir sem fram hafa komið er varða heilsufar og aðrar afleiðingar.

Í morgun var það svo heilbrigðisráðherra Noregs, Bent Høie, sem hefur áhyggjur af því hvaða áhrif það getur haft á áfengissölu í Noregi ef Alþingi Íslendinga ákveður að heimila sölu í matvöruverslunum. Því að á sama tíma og Sjálfstæðismenn fyrst og síðast, ásamt einhverjum þingmönnum í Finnlandi, vilja meira frelsi í þessum málum eru önnur ríki Evrópu að reyna að draga úr. Hvers vegna skyldi það vera? Vegna þess að aukið frelsi eða aðgengi hefur haft í för með sér alvarlegri áfengisvandamál. Þetta kom fram í Aftenposten og er vitnað í ráðherrann, þ.e. norska heilbrigðisráðherrann. Finnar velta fyrir sér að heimila sölu á drykkjarvörum sem innihalda alkóhólmagn frá 5,5%. Þá er verið að tala um létta áfengið. Við erum hins vegar hér með frumvarp sem heimilar allt áfengi í matvöruverslanir. Ég held að við séum að stíga skref aftur á bak, við erum að stíga skref í þá átt sem fleiri en færri eru að reyna að hverfa frá.

Ég vona svo sannarlega að þetta verði ekki að veruleika. Ég fagna því að norski heilbrigðisráðherrann ætlar að ræða þessi mál við starfsbræður sína á Norðurlöndunum á ráðherrafundinum í maí. Þá verður það vonandi ekki orðið of seint, ég vona að Íslendingar verði ekki þá þegar búnir að samþykkja þetta. Eins og staðan er í augnablikinu vona ég að málið nái ekki fram að ganga. Málið er ekki komið fyrir nefndina að þessu sinni en þó hefur það komið fram að skoðanir fólks hafa ekkert breyst frá því á síðasta ári, þ.e. þeirra fagstétta og annarra sem fjallað hafa um málið. Ég vona líka að þetta verði ekki eina málið sem fái umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd. Það hefur tekið mjög mikið pláss í nefndarvinnu. Mér þykir mikilvægara að önnur góð mál sem þangað fara fái umræðu og hljóti brautargengi.

Ég hef heldur ekki getað áttað mig á hvers vegna við viljum endilega breyta fyrirkomulagi sem hefur reynst okkur ágætlega, hvort sem við tölum í lýðheilsulegu samhengi eða öðru hefur þetta reynst okkur ágætlega. Hægri mennirnir hafa gjarnan talað um að við vinstri menn séum með forræðishyggju, mér finnst það partur af forræðishyggju að vilja troða þessu í verslanir gegn vilja meiri hlutans í ítrekuðum skoðanakönnunum, (VilÁ: Er þetta ekki í verslunum?) þ.e. þegar meiri hluti landsmanna vill þetta ekki. (VilÁ: ÁTVR er verslun.) (Gripið fram í: Farðu bara á mælendaskrá.) Virðulegi forseti, ég hef væntanlega orðið. (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða það að þingmaður í ræðustól hefur orðið.)

Það er líka áhugavert að sá þingmaður sem hér gaspraði fram í var auðvitað fyrsti flutningsmaður málsins síðast. Ég veit ekki hvort hann hefur ekki treyst sér til þess að vera fyrsti flutningsmaður aftur og taka allan þvottinn í fangið sem hann fékk síðast. Alla vega virðast þau skiptast á, ungstirnin í Sjálfstæðisflokknum, við að taka þetta mál að sér.

Þegar maður veltir því fyrir sér hvers vegna aftur og aftur sé verið að koma fram með þetta mál, þrátt fyrir allar þessar kannanir, þá er ekkert óeðlilegt að maður fari að huga að því hverra erinda sé verið að ganga. Stór hluti hinna almennu neytenda, og þetta er nú ríkisstjórn neytenda að því er mér hefur skilist, er ekki með þessu og þetta gengur gegn stefnu yfirvalda í vímuvörnum, en hún liggur fyrir til ársins 2020. Þar er talað um takmörkun á aðgengi og þar segir, með leyfi forseta:

„Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa er að takmarka aðgengi.“

Ég vænti þess að heilbrigðisráðherra og fleiri ráðherrar í ríkisstjórninni komi til með að vera þessu mótfallnir ef þeir ætla að fylgja samþykktri lýðheilsustefnu. Nema þeir kjósi að leggja fram nýja.

Í umsögnum við frumvarpið sagði embætti landlæknis um þetta:

„Á grundvelli bestu fáanlegra gagna og við skoðun á niðurstöðum rannsókna og ráðlegginga frá m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um aðgerðir í áfengismálum er takmarkað aðgengi að áfengi ein skilvirkasta leiðin til að sporna við aukinni áfengisneyslu og um leið að draga úr þeim skaða sem getur hlotist af áfengisneyslu.“

Þess ber að geta að hv. framsögumaður málsins tekur ekki mikið mark á vísindarannsóknum að eigin sögn. Það skiptir því kannski engu máli hvað um þetta er sagt ef það mælir gegn þessu. Það er áhyggjuefni. Það er áhyggjuefni ef vísindin hafa ekkert um það að segja þegar slíkt er haft í huga. Það er líka vert að velta því fyrir sér af hverju tillöguflytjendur gera ekki tilkall til þess að þeim sem eiga að fá allt þetta frelsi og allt þetta leyfi beri að borga fyrir þann skaða sem af þessu hlýst og þann aukna kostnað sem samfélagið verður fyrir.

Fjallað er um einkavæðingu kerfa varðandi áfengi í grein eftir Robin Room, einn af höfundum bókarinnar Áfengi er engin venjuleg neysluvara, í tímaritinu Contemporary Drug Problems. Þar segir Room áfengiseinokun skilvirkari leið til að draga úr áfengisneyslu og skaðsemi hennar. Það er eiginlega alveg sama hvar borið er niður, það fólk sem hefur rannsakað þetta, haft með þetta að gera í áratugi, það kemst allt að sömu niðurstöðu. Ég spyr: Hvert er frelsið? Hvert er frelsið, þegar upp er staðið, ef það er í formi þess að íþyngjandi sjúkdómar, íþyngjandi álag á allt okkar innviðakerfi, verður niðurstaðan? Ég er búin að hlusta á þingmenn sem eru þessu hlynntir frelsisins vegna. Ég verð að segja að ég er þeim ekki sammála. Ef maður setur lýðheilsusjónarmiðin til hliðar, sem mér finnst þó vera einna sterkust — ég kem úr litlu samfélagi og menn gera lítið úr því að vöruúrval verður lítið, að ungmenni eru að stærstu leyti að afgreiða, ég bý við þetta þannig að ekki er hægt að segja að maður viti ekki um hvað maður er að tala. Ég bý á stað þar sem áfengisverslanir eru í kortersfjarlægð beggja vegna, ekki í mínum heimabæ, en þar nýtur unga fólkið þess að geta starfað í verslununum. Oftast er einhver einn fullorðinn á vakt, en það er erfitt í þessu eins og svo mörgu öðru að standast jafningjaþrýsting, það skal ekki vanmetið. Okkur hefur tekist ágætlega með sölu tóbaks en það er ekki yfir allan vafa hafið. Það hafa óformlegar kannanir sýnt, því miður. Þar er brotalöm líka. Það er ekki bara þetta unga fólk sem er að selja heldur líka aðrir.

Ég hef líka efasemdir um að verslunin sé rekin með það fyrir augum að hagnast. Í sjálfu sér er ÁTVR ekki rekin með því fyrirkomulagi fyrst og fremst að hagnast. Hún skilar að sjálfsögðu hagnaði, en það er ekki aðalmál verslunarinnar. Hvatinn er í raun aftengdur í þessu samhengi ef við ætlum að fara með þetta út í hina almennu matvöruverslun. Við skulum ekkert horfa fram hjá því að við erum með stóra markaðsráðandi aðila í matvöruverslun sem nú þegar hafa tryggt sér mjög margar sortir til sölu, ef svo má segja. Þessir aðilar koma til með að stjórna markaðnum. Hvar eru þeir? Þeir eru fyrst og síðast hér á höfuðborgarsvæðinu og svo með stöku verslun úti á landi. Hvað þýðir það? Litli aðilinn kaupir af þeim því að hann hefur ekkert í þessa samkeppni að gera.

Frú forseti. Mér finnst vera mjög margar hliðar á þessu. En ég lít svo á að hér sé fyrst og síðast verið að ganga erinda verslananna þar sem stóru aðilarnir koma til með að ráða för. Við eigum að bera virðingu fyrir því að þetta er vandmeðfarin vara sem hefur, þótt lögleg sé, því miður of marga neikvæða eiginleika sem hafa birst okkur. Við þurfum að takast á við afleiðingar sem kosta samfélagið og fjölskyldur, börn sem engu ráða um þær aðstæður sem þau standa frammi fyrir, þurfa að takast á við. Það er líka okkar hlutverk að vega það og meta. Það væri áhugavert að vita hvort talsmenn þessa frumvarps hafa látið kanna hvort og ef svo er hvaða áhrif þetta gæti haft á ungt fólk og börn. Mér finnst þetta svo stórt mál að mér finnst það skipta máli. Auðvitað eigum við að kanna öll mál með tilliti til áhrifa á börn, en ekki síst í þessu tilfelli. Þetta er alger tímaskekkja. Enn og aftur er verið að leggja þetta frumvarp fram þegar svo mörg önnur brýn samfélagsmál eru undir sem við ættum að vera að ræða hér. Mjög mörg önnur.

Virðulegi forseti. Ég held því miður að það fólk sem stendur fyrir flutningi þessa máls hafi ekki hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi heldur sérhagsmuni og þá fyrst og síðast verslunarinnar.