146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef einhver segir eitthvað í útlöndum verður það ekki sjálfkrafa að sannleika. Ég er bara að segja að staðreyndirnar tala sínu máli. Ungmenni drekka minna áfengi núna þrátt fyrir mikla fjölgun útsölustaða. Ef yngra fólkið drekkur minna má búast við að það drekki þá minna út ævina. Þróunin er þá í rétta átt, er það ekki? Alveg sama hvað kannanir segja í útlöndum. (Gripið fram í.) Nei, ég er bara að segja að með þeim rökum sem hv. þingmaður heldur fram, þ.e. að hættan sé á að hér fari allt til andskotans, dómsdagsspár endalaust, er auðvitað rétt að snúa við. Það hlýtur að vera. Ég er ekki að biðja um mjólk í mjólkurbúðirnar aftur, ég er bara að biðja um þetta. Förum bara aftur. Það hlýtur að hafa sömu áhrif vegna þess að áfengisneysla hlýtur þá að hafa aukist með öllum þessum nýju áfengisútsölustöðum. Með sömu rökum spólum við bara til baka. Að minnsta kosti. Eða kannski ættum við bara að banna þetta. Það er bara þannig. Það er ekki flóknara en það.

Og að einkasalan þurfi að vera á höndum ríkisins? Hver fann það upp? Ef við getum selt lyf hjá einkaaðilum getum við selt áfengi þar. Þetta er bara undarleg ríkisforsjárhyggja dauðans, enda kemur það svo sem ekkert á óvart þegar það kemur úr þessum flokki. Það er bara þannig og við skulum bara sætta okkur við það. Það eru auðvitað engin rök fyrir þessu en ég skil samt alveg að menn hafi áhyggjur af þessu. Og ég skil alveg að fólk vilji ekki hafa þetta. Ég hef sagt það áður að ég elska þetta fyrirtæki, ÁTVR. Það er ekki málið. Það er bara þessi rökfræði sem gengur ekki upp hjá hv. þingmanni.