146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:31]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég myndi kannski vilja fá betra svar við fyrri spurningu minni. Ég veit að þetta er þingmannamál, ég veit að það er ekki lagt fram af ríkisstjórn. Það eru samningar í lokin um hvaða málum við hleypum áfram og hverjum ekki. Ég er að velta fyrir mér: Væri það þingmanninum mjög á móti skapi að þetta mál kæmi til lokaatkvæðagreiðslu og greidd yrðu um það atkvæði hér?

Svo er það hitt, varðandi skoðanakönnunina. Ég er alveg sammála því að þessi skoðanakönnun mæli ekki endilega afstöðu til þessa frumvarps. En það er þá athyglisvert að þeir þingmenn sem koma hér upp í andstöðu við það eiga ekki í neinum vandræðum með að vísa í nákvæmlega sömu skoðanakönnun til að halda því fram að ekki sé stuðningur við frumvarpið. Ég er sammála því. Það ætti einfaldlega að beina því til þeirra sem mæla stuðning við þetta tiltekna frumvarp að spyrja um það en ekki hver afstaða sé til þess að sterkt áfengi sé sett í verslanir, að léttvín og bjór sé seldur í verslunum. Þar er verið að vísa til frumvarps sem var hér fyrir um áratug síðan og á ekki lengur við. Það er mín athugasemd. Ég held að þingmaðurinn geti verið mér sammála um að gott væri að við mældum stuðning við þetta tiltekna frumvarp. Og að sama skapi og það er rangt þegar hún að einhverju leyti ýjar að því að ég fari ekki rétt með um skoðanir ungs fólks og afstöðu til þessa frumvarps get ég vísað því á hinn veginn, við ættum þá ekki endilega að túlka niðurstöður kannana um afstöðu til einhvers annars máls með þeim hætti.

Frumvarpið okkar er ekki frumvarp um að setja bjór og léttvín eða eitthvað annað sérstaklega í matvöruverslanir. Það er gert ráð fyrir sérverslunum, sérrými innan verslana. Við höfum breytt talsvert um kúrs frá því að þetta var gert síðast. Þar var talað um bjór og léttvín í matvöruverslanir, til hliðar með mjólkinni. Nú er búið að breyta um kúrs á þann hátt að það er svipuð umgjörð sem gildir og gildir í dag um ÁTVR, raunar strangari á margan hátt.