146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir hennar ræðu og fyrir að fara í gegnum það sem hefur komið fram í rannsóknum um að það kerfi sem við búum við núna á Íslandi snúist um að takmarka aðgengi að áfengi. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er mikilvægt og að þetta sé fyrirkomulag sem full ástæða er til að standa vörð um. Meðal annars þess vegna er ég sammála hv. þingmanni í því að vera á móti frumvarpinu.

En það er eitt sem mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um. Hvað eftir annað í greinargerðinni er talað um áfengi eins og hverja aðra neysluvöru. Hér er til að mynda fyrirsögn þar sem stendur: Kostir þess að selja áfengi með annarri neysluvöru. Einnig er talað um að þetta sé almenn og lögleg neysluvara eins og tóbak og skotfæri. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að ekki er hægt að fjalla um áfengi sem hverja aðra neysluvöru. Áfengi er vissulega lögleg vara en ekki almenn neysluvara.