146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst mikilvægt að við drögum það fram í þessari umræðu að flutningsmenn tillögunnar virðast hafa aðra sýn á það hvers konar vara áfengi er en við hin sem höfum lýst því yfir að við séum mótfallin frumvarpinu. Mér var reyndar bent á hér áðan, meðan hv. þingmaður talaði, að ekki er nóg með að í greinargerð sé talað um þetta sem almenna neysluvöru heldur segir hreinlega í greinargerðinni að þetta sjónarmið eigi við um áfengi sem og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur. Það er í raun gengið enn lengra, að áfengi sé ekki einungis neysluvara heldur hreinlega nauðsynjavara. Ég hlýt að mótmæla því.

Það er annað sem hefur komið fram hér í umræðunni í þingsal. Nokkrir hv. þingmenn hafa lýst því yfir að þeir geti ekki samþykkt frumvarpið í þeirri mynd sem það birtist hérna en kannski sé hægt að ná fram einhverjum bótum á því. Til dæmis hefur verið nefnt að falla frá því sem hér er lagt til um að leyfa áfengisauglýsingar. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þetta. Er ekki full ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart þessu? Því að hér er verið að færa línuna enn framar til þess einmitt að geta samið ákveðna vankanta af málinu og samþykkja eitthvað sem væri þá mildari útgáfa af því sem (Forseti hringir.) birtist í frumvarpstextanum. Ég spyr hvort við þurfum ekki að vera sérstaklega vakandi fyrir þessu, því að þar með er jú verslunin komin með tærnar inn í smásöluna.