146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:50]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áfengi er vissulega neysluvara. Ég held því ekki fram að það sé venjuleg neysluvara. Ef það væri skoðun okkar að áfengi væri venjuleg neysluvara myndi þetta frumvarp hljóma þannig að áfengislög féllu úr gildi. Þá myndi bara vera verslað með áfengi eins og hverja aðra neysluvöru. Áfengislög eru áfram í gildi með mjög ítarlegum og oft íþyngjandi reglum um það hver má selja áfengi, undir hvaða kringumstæðum. Það eru háir skattar á áfengi. Það er settur peningur í forvarnir gegn áfengisnotkun. Þetta á ekki við um venjulega neysluvöru. Við erum alls ekki að halda því fram að áfengi sé venjuleg neysluvara.

Að öðru leyti langar mig að þakka þingmanninum kærlega fyrir góða ræðu. Ég held að hún hafi sett þungann á það sem að mínu mati eru bestu rökin í þessu máli, sem eru rök um lýðheilsu og það að aukin neysla áfengis valdi hugsanlega samfélagslegum skaða. Ég velti því fyrir mér, því að áðan var kallað fram í að hér væri málefnaþurrð þegar við vorum að spyrja fólk um afstöðu þess til bjórsins og annarra hluta, ef hv. þingmaður er á þeirri skoðun að takmarka beri áfengisneyslu hvaða leiðir hún myndi leggja til að farnar yrðu til þess að það yrði gert. Yrði það gert með því að banna bjórinn aftur og ef það er ekki leiðin, hvaða aðrar leiðir telur hún að séu rökréttastar sem næsta skref til að tempra frekar neyslu áfengis? Ef ég skil ræðu hennar rétt hlýtur það að vera takmarkið.