146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:52]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek fyrir andsvarið. Nú tek ég það skýrt fram að ég er ekki sérfræðingur á sviði forvarna eða nokkurs slíks. Ég leita í smiðju sérfræðinga og ræði við þá. Þeir segja mér að takmarkað aðgengi að áfengi hamli ofneyslu, það dragi úr neyslu á áfengi, sem og öðru eins og sannaði sig með aðgengi að tóbaki og þeim aðgerðum sem við fórum í þar. Það var stór hluti af því að tóbaksneysla minnkaði. Ég held að við þurfum að halda okkur við þetta. Ég held að það sé ekki raunhæft og væri ævintýralegt að halda að við gætum spólað til baka um nokkra áratugi eða langt aftur í tímann og farið að banna allt. Við komumst aldrei á þann stað. Þetta er spurning um fræðslu, forvarnir og stýringu á aðgenginu. Ég vil ekki hreyfa við því fyrirkomulagi sem við erum með núna, ekki eins og er og ekki nema ég fái fyrir því gild rök. Við þurfum þá að rannsaka frekar hvaða áhrif það hefði. Við höfum ekki slíkar rannsóknir. Við höfum ekkert sem mælir með því að fara þá leið. Þess vegna vil ég að við höldum okkur við leiðina sem hefur sýnt sig að er góð. Það hefur sýnt sig að hún hjálpar okkur og við náum árangri með henni. Ég vil ekki hreyfa við því.