146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:19]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir andsvarið og fyrir að leyfa mér að tala um auglýsingar. Í morgun á leiðinni upp í Háskóla Íslands sá ég þrjár auglýsingar málaðar stórt og skýrt á bíl. Ég sá ekki letrið. Auglýsingar eru til staðar. Við verðum að takast á við það hvernig þær eru. Það sem ég vil er að við hnykkjum á því að þær eigi ekki að beinast börnum, alveg eins og stendur í tóbaksvarnalögum, þeim nýju sem komu um daginn. Ég vil að við förum að beina athygli okkar að því að nú þegar eru auglýsingar til staðar og það gerir enginn neitt í því. Ég var að keyra heim frá þinginu um daginn og ég heyrði fjórar auglýsingar í útvarpinu með því að fletta milli stöðva. Það var ein í boði Tuborg, ein í boði Heineken, það var „happy hour“ og það var alltaf kaldur bjór á krana. Við verðum að ræða þetta. Hvernig viljum við hafa þetta? Það er ekkert bara núna.

Hvað varðar formennsku í velferðarnefnd ætla ég að taka fram að ég er einnig einstaklingur. Ég er einstaklingur, ég er þingmaður sem hefur rétt á að hafa skoðun á þessu. En sem formaður velferðarnefndar er ábyrgð mín að verja þetta forvarnastarf. Ég verð að gera það og ég verð að verja þann meðferðarkjarna sem ég talaði um. Ég verð að axla ábyrgð á þeirri ákvörðun sem ég hef tekið og það mun ég gera sem formaður velferðarnefndar. En sem einstaklingur, sem þingmaður, sem kona sem ólst upp í öðru landi við allt aðra menningu og aðra reynslu og sýn á þetta segi ég: Ég vil að við tökum þessa umræðu á málefnalegan hátt.