146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:25]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það. Ég ætla að deila með ykkur einni góðri sögu. Í fyrsta skipti sem ég fór í áfengisverslun þegar ég kom hingað fyrir 16 árum voru færri áfengisbúðir. Þær voru lokaðar í fjóra daga yfir jól. Ég gekk upp í ÁTVR og þar var röð fyrir utan. Það var fólk að koma út með vagna fulla af áfengi. Ég skildi hreinlega ekki hvað var að gerast fyrir augum mér. Ég vissi ekki hvað var í gangi. Í alvöru. Ég er ekkert að grínast. Ég hugsaði bara: Hva, eruð þið bara alveg að loka þessu? Ég skildi þetta ekki. Þetta fyrirkomulag sjáum við ekki eins oft núna. Alla vega hef ég ekki orðið vör við svona stórinnkaup. Og það sem gerðist var að við fórum inn og ég ætlaði bara að kaupa eina vínflösku til að hafa með jólamat, því að ég er vön því. Maðurinn minn fór inn með mér og sagði: Nei, nei, nei, þú verður að kaupa þetta og þetta og þetta. Þetta fólk er að koma og þetta er að gerast og búðin verður lokuð í fjóra daga. Ég fór bara í eitthvert kast og keypti og keypti en drakk ekkert af því. Ég bara skildi þetta ekki. En núna sé ég fólk fara inn og kaupa og það kaupir af ábyrgð. Ég tel að þessi hegðun hafi með það að gera að við tölum hátt og skýrt um ábyrgð okkar gagnvart áfengisneyslu og skaðsemi hennar. Við höldum umræðu okkar þar, við eflum þessa forvörn og erum ekkert hrædd við það. Við erum ekkert feimin við að segja það og leyfa börnum að njóta þess ávinnings og fólki að segja nei ef það vill. Þótt það verði sala hér og þar munum við áfram hafa áhrif á hegðun fólks og neyslu áfengis.