146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þetta óheillamál hér eina ferðina enn. Mér fannst það mjög athyglisvert hjá hv. þm. Teiti Einarssyni, 1. flutningsmanni málsins, þegar hann velti því fyrir sér hvort frumvarpið myndi breyta neysluhegðun, hvort heilbrigð neysluhegðun myndi ekki fylgja í kjölfarið. Allt í einu er eins og lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi í frumvarpinu, eins og um sé að ræða heilsumál boðað af frjálshyggjumönnum landsins. — Afsakið, herra forseti, heilsa mín er ekki alveg upp á það besta svo að ég ætla að fá mér vatnsglas.

Það eru ýmis rök í þessu máli. Hver talar fyrir sig í þeim efnum, hvort hann er fylgjandi því að áfengi fari í almennar verslanir eða fylgjandi því að áfengi verði áfram innan Áfengisverslunar ríkisins og að ríkið verði áfram með einkaleyfi á sölu þess. Það togast á lýðheilsusjónarmið og sjónarmið svokallaðs frelsis, frelsis einstaklingsins og viðskiptafrelsis; sjónarmið frelsis og þeirra sem líta svo á að sýna þurfi ábyrgð í þessum málum og að áfengi sé ekki eins og hver önnur neysluvara heldur þurfi að búa áfengissölu þá umgjörð að dregið sé úr möguleikum á aðgengi yngra fólks sem hefur ekki aldur til að neyta áfengis, hafa ekki áfengi fyrir augum þeirra sem eru veikir fyrir áfengi og kunna ekki með það að fara og sinna forvörnum á þann hátt að hafa eins takmarkað aðgengi að áfengi og mögulegt er, en áfengi er að sjálfsögðu aðgengilegt þeim sem hafa aldur til vítt og breitt um landið eins og það er í dag. Það er yfir höfuð mikil ánægja með það hvernig staðið hefur verið að þessum málum í gegnum tíðina. Út af hverju ættum við þá að hverfa af þeirri braut þegar reynslan hefur sýnt okkur að enginn kallar eftir því að áfengi fari í verslanir?

Nýjasta könnunin sýnir okkur að enn eru um 60% landsmanna andvíg því að áfengi fari í verslanir og vilja hafa málin í þeim farvegi sem það er í dag. Í mínum huga eru það lýðheilsusjónarmiðin númer eitt, tvö og þrjú sem gera að verkum að ég leggst alfarið gegn þessu máli, sem er flutt hér í 13. skipti. Ég er mjög undrandi á flutningsmönnum þess, sérstaklega 1. flutningsmanni þess, nýjum þingmanni, Teiti Einarssyni. Ég hefði talið að þetta væri ekki fyrsta mál sem kæmi upp í huga hans þegar hann settist hér á Alþingi, það væru önnur mál sem brynnu frekar á honum, svo sem byggðamál og vandi landsbyggðarinnar, ég tala nú ekki um Vestfjarða þar sem hann er uppalinn og þekkir vel til. Ég varð ekki vör við það í kosningabaráttunni að flutningsmenn þessa máls hefðu barist fyrir því eða haldið ræður um það að þetta yrði fyrsta málið sem menn myndu leggja fram ef þeir kæmust inn á þing. Það hefði kannski verið sanngjarnt gagnvart kjósendum að halda því meira á lofti en gert var. Það má vel vera að einhverjir hafi haldið því fram í þrengri hóp, en heilt yfir minnist ég þess ekki að blaðagreinar hafa komið frá flutningsmönnum um að það yrði þeirra stóra mál ef þeir settust á þing að berjast fyrir því að áfengi færi í verslanir.

Mér finnst það heldur ekki mjög heiðarlegt að koma alltaf með þetta óheillamál svona bakdyramegin vegna þess að menn þora ekki að tala fyrir því í kosningabaráttu. Þetta er ekki vinsælt mál. Þetta er ekki mál sem selur nema ákveðnum þröngum hópi. Sá hópur er kannski nú þegar í þeim flokki, Sjálfstæðisflokknum, sem hefur verið baráttuflokkur fyrir þessu máli. Núna kemur litli Sjálfstæðisflokkurinn upp að hliðinni, Viðreisn, og tekur upp fána þessa máls. Mér þykir mjög undarlegt að Björt framtíð, sá flokkur, leggist í víking fyrir þetta mál. Mér finnst það mjög undarlegt að sá flokkur hafi þetta á sinni stefnuskrá. Af því að þetta er mjög alvarlegt mál. Við berum öll ábyrgð á samfélaginu okkar með einum eða öðrum hætti. Hvort sem við erum þingmenn, uppalendur, kennarar, leikskólakennarar eða hvar við erum stödd í þjóðfélaginu þá berum við sameiginlega ábyrgð á að standa vörð um réttindi barna okkar og draga úr því að ungt fólk leiðist út í neyslu á vímuefnum og öðru því um líku fyrir þann aldur sem það má neyta þess. Við getum aldrei komið í veg fyrir vandamál, hvort sem þau heita áfengisvandamál eða vímuvandamál, en við getum dregið úr þeim. Við gerum það með því að hafa þessa hluti á þann hátt sem verið hefur hér á Íslandi. Við eigum að vera stolt af því. Við eigum ekki að vera með neina minnimáttarkennd út af því.

Vissulega er sinn siðurinn í landi hverju. Í Bandaríkjunum eru aðrir siðir. Á Íslandi eru aðrir siðir. Okkar siðir reynast þannig að það hefur dregið úr neyslu á áfengi og við erum farin að umgangast áfengi á annan hátt en áður. Það hefur dregið úr unglingadrykkju hér á Íslandi, allar rannsóknir hafa sýnt fram á það. Út af hverju í ósköpunum ættum við ekki að hlusta á öll okkar félagasamtök, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, landlækni, Barnaheill og öll félagasamtök sem vinna með börnum, foreldrasamtök og önnur? Út af hverju ættum við að skella skollaeyrum við öllum þeim rökum sem koma fram í umsögnum þeirra í þessu máli eins og síðast þegar það var flutt? Það hefur ekkert breyst.

Út af hverju eigum við að vera að finna upp hjólið í þessum efnum og fara að tala um þetta mál eins og um sé að ræða lýðheilsumál; að núna verði svo heilbrigð umgengni um áfengi, nú þurfi menn ekki að standa í röðum, nú geti menn bara skottast út í Bónus og Nettó og keypt þetta? Það eru ekkert allir sem vilja hafa áfengi fyrir augunum þegar þeir eru að kaupa hina venjulegu neysluvöru, mat og annað, fólk vill það ekki. Þó að þetta sé með öðrum hætti í öðrum löndum þá er það bara þannig. Við höfum verið í forgöngu í því að sýna fram á að það er hægt að hafa hlutina í þessum farvegi. Við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir það þó að ríkið hafi þetta á sinni könnu og hagnist eitthvað á því. Það er bara í góðu lagi því að ríkið hefur heilbrigðiskerfi á sínum vegum. Þar vantar vissulega fjármuni í forvarnir og heilbrigðismál. Okkur veitir þá ekkert af því að það komi einhverjar tekjur inn á þessu á endanum.

Það er aldrei minnst á það hér að það eru kannski fyrst og fremst sjónarmið verslunarinnar og stóru verslunarkeðjanna sem reka menn áfram í þessari vegferð, það eru hagsmunir stórfyrirtækja eins og Haga sem hafa komist yfir umboð fyrir fjölda áfengistegunda. Það eru þessir stóru aðilar sem munu fagna ef svona mál nær hér í gegn. Erum við hér inni, þingmenn, að leiða fram hagsmuni þessara stóru verslunarkeðja? Eða ætlum við að hugsa um börnin okkar og unglingana okkar og þá einstaklinga í þjóðfélaginu sem eru veikir fyrir? Höfum við hlustað á það sem SÁÁ hefur verið að tala um í þessu máli? Skiptir það okkur engu máli? Segjum við bara að hver og einn eigi að bera ábyrgð á sjálfum sér? Er það eðlilegt? Er það þannig þegar á reynir? Viljum við þá ekki að við hugsum um náungann þegar á reynir? Það er voða gott að halda þessu fram þegar allt er í lag. Einstaklingar sem telja sig geta farið vel með áfengi og drukkið það með jólasteikinni álíta mjög gott að geta farið að kvöldi aðfangadags eða á jóladag út í Nettó og keypt sér rauðvín með matnum. Þetta lítur vel út í bíómyndum, en þetta er glansmynd sem ekki er dregin upp í fjölskyldum sem hafa verið að berjast við áfengisvanda. Ung börn og fjölskyldur áfengissjúklinga segja aðra sögu og vilja ekki að fólk geti gengið út í matvörubúð til að versla í matinn og hafi þennan varning fyrir augunum dagsdaglega.

Ég vil líka koma aðeins inn á eitt sem gleymist oft og ég ætla að halda til haga, þ.e. fjöldi starfa vítt og breitt um landið hjá ÁTVR og oft vinnur þar eldra fólk. Þetta fólk kæmi til með að missa vinnuna. Mönnum er trúlega alveg sama um það, segja bara að önnur störf skapist á móti. En það er ekkert sjálfgefið að það gerist. Í verslunum úti á landi er aðgengi að áfengi ágætt fyrir þá sem mega neyta þess, en ég sé ekki að það verði ef áfengissala verður gefin frjáls og áfengi fer í verslanir. Þessar litlu verslanir munu verða með mjög fábreytt úrval og álagning er há. Þessar litlu verslanir hafa ekki efni á að liggja með stóran lager, hafa ekki efni á að vera með fjölbreytt úrval. Þær munu leggja á verðið upp á móti flutningskostnaði, en í dag er sama verð á áfengi um allt land. Nei, nú skal landsbyggðin borga fyrir sitt bús verð sem einokunarrisarnir ætla sér að fá greitt. Það verða engir jöfnunarsjóðir til að jafna það eða neinn til að tala fyrir því.

Flutningsmönnum málsins er auðvitað nákvæmlega sama um það þó að áfengisverð hækki úti á landi og vöruúrvalið minnki. Það skiptir þá engu máli. Það verður nóg framboð af áfengi hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem markaðurinn er. Á þetta að færast í gamla farið, þ.e. að fólk úti á landi, sem hefur aldur til og vill versla áfengi af og til, verði að panta í póstkröfu frá Reykjavík? Er verið að færa þetta aftur um 30 til 40 ár? Ég held að fólk ætti aðeins að hugsa um þetta í þessu samhengi þegar verið er að tala um þessi mál. Þetta er önnur hlið á þessu máli en lýðheilsuhliðin, að draga úr neyslu á áfengi, er mér efst í huga.

Ég er hér með könnun frá Hagstofunni sem segir að áfengis sé sjaldnar neytt á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Gott og vel. Ekki er það þessu frumvarpi að þakka. Nei, það er því að þakka að í landinu er heilbrigðis- og forvarnastefna sem hefur skilað þessum árangri. Við erum með þetta í góðu lagi í dag innan ÁTVR, mjög góður umbúnaður um þessi mál, sem hefur orðið til þess að við erum ofarlega á blaði hvað varðar árangur, þ.e. það dregur úr áfengisneyslu og Íslendingar neyta sjaldnar áfengis en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Við þekkjum vandamálið í Danmörku þar sem er mikið um dagdrykkju sem hefur áhrif á vinnu manna á vinnumarkaði. Þetta vandamál yrði að sjálfsögðu til staðar hér á Íslandi ef menn gætu kippt með sér bjór þegar þeir fara út í sjoppu í tíukaffinu og fá sér nesti og annað því um líkt. Flutningsmönnum þessa máls er trúlega sama um allt slíkt, það snertir þá ekki, heldur eru það gróðasjónarmiðin (Forseti hringir.) hjá stórverslununum sem reka þá áfram eins og verið hefur í þau 13 skipti sem þetta mál hefur verið hér á dagskrá.