146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við urðum ekki mikið vör við það, þingmenn, í kjördæmavikunni að ákall væri eftir áfengi í verslanir. Það brann nú meira á fólki að fara að sjá einhverja innviðauppbyggingu í landsfjórðungi okkar og í landinu öllu. En mér finnst það mjög einkennilegt þegar rætt er um forvarnastarf að áskoranir sem okkur þingmönnum hafa borist varðandi það að samþykkja ekki þetta mál séu kallaðar hræðsluáróður. Hræðsluáróður gagnvart hverju? Þetta er auðvitað bara heilbrigð skynsemi og rannsóknir sem legið hafa fyrir og fagaðilar á Íslandi og vítt og breitt um heiminn hafa tjáð sig um þetta. Á því byggjast þessar áskoranir.

Ég er með áskorun frá Barnaheillum, UNICEF, með leyfi forseta:

„Við hvetjum þingmenn til þess að kynna sér vel rannsóknir og afstöðu fagfólks á sviði heilbrigðis- og félagsmála til frumvarpsins. Þar kemur skýrt fram að afnám einkasölu ÁTVR og aukinn sýnileiki áfengis í auglýsingum, mun leiða til aukinnar áfengisneyslu, bæði meðal unglinga og fullorðinna. Er því ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu hafa verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu, þroska og öryggi barna.“

Þetta vegur þungt í huga mínum og ætti að gera það hjá okkur öllum þingmönnum. Við getum ekki alltaf fríað okkur ábyrgð í skjóli svokallaðs frelsis. Frelsi eins er helsi annars. Það er bara þannig. Við þurfum að gæta okkar með svo margt og vanda okkur. Við setjum lög um ýmislegt. Ekki vildum við bakka og taka það t.d. út úr í umferðarlögum að það eigi að nota öryggisbelti. Einhver myndi nú kalla það forræðishyggju að setja lög um öryggisbelti. Eigum við ekki bara að meta það sjálf hvort það er hættulegt að vera án öryggisbelta í umferðinni eða ekki?